Viðskipti innlent

Reynslu­bolti í hótel­rekstri færir sig um set

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thelma er klár í slaginn.
Thelma er klár í slaginn. Eygló Gísladóttir

Thelma Thorarensen hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Keahótelum ehf. Thelma mun, sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, stýra starfsemi tíu hótela félagsins sem staðsett eru í Reykjavík og á landsbyggðinni.

Í tilkynningu frá Keahótelum segir að Thelma hafi viðamikla reynslu í hótel- og veitingahúsarekstri. Hún var stjórnandi hjá Íslandshótelum til fjölda ára og hafi þar komið að opnun stærsta hótels Íslands sem aðstoðarhótelstjóri og svo tekið við stöðu hótelstjóra. 

Thelma hafi m.a. stýrt stærstu hótelum landsins ásamt veitingastöðum og ráðstefnusölum, setið í fagnefndum og komið að ýmsum stefnumótunarverkefnum. Frá árinu 2020 hafi hún einnig starfað sem kennari í hótel- og veitingahúsarekstri við Opna Háskólann í Reykjavík, en það nám sé í samstarfi við César Ritz háskólann í Sviss. Áður hafi Thelma gegnt stöðu siðameistara hjá sendiráði Bandaríkjanna hér á landi.

„Framúrskarandi gestrisni og hótel- og veitingahúsarekstur hefur alla tíð verið Thelmu hugleikinn. Hún hefur starfað í geiranum í rúm tuttugu ár. Thelma lauk BA gráðu í alþjóðaviðskiptum í hótel og ferðamálarekstri árið 2010. Áður lauk hún diplómanámi í hótel- og veitingahúsarekstri frá Menntaskólanum Kópavogi í samstarfi við César Ritz,“ segir í tilkynningunni.

„Keahótel er leiðandi hótelkeðja sem samanstendur af tíu hótelum sem staðsett eru víðs vegar um landið, flest í Reykjavík en einnig Hótel Kea á Akureyri, Sigló Hótel á Siglufirði, Hótel Katla í Vík í Mýrdal og nýjasta viðbótin, Grímsborgir í Grímsnesi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×