Handbolti

„Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn glaður“

Hinrik Wöhler skrifar
Sigursteinn Arndal hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft.
Sigursteinn Arndal hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft. vísir/diego

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, sveif um á bleiku skýi eftir að hafa stýrt sínum mönnum til sigurs í Mosfellsbæ í kvöld og þar með tryggt fyrsta Íslandsmeistaratitil FH síðan 2011.

„Ég held að ég hef sjaldan verið jafn glaður,“ sagði Sigursteinn eftir að titillinn fór á loft.

„Mér fannst við alltaf vera á undan og rauninni á öllum sviðum. Ég vil samt sem áður þakka Aftureldingu fyrir frábært einvígi. Þeir voru virkilega öflugir og við þurftum að hafa ofboðslega mikið fyrir þessu.“

FH var með yfirhöndina gegnum allan leikinn og stóðu vörnina vel. Þeir náðu að loka á hættulegasta leikmann Aftureldingar, Þorstein Leó Gunnarsson, í leiknum í kvöld.

„Við þurftum að bregðast við því eftir fyrsta leik og mér fannst við hafa gert það. Hann er náttúrulega stórkostlegur leikmaður en við náðum einhvern veginn að drena hann. Hann var alltaf þreyttur,“ sagði Sigursteinn um varnarleik sinna manna í kvöld.

FH sigraði deildina einnig og hefur tímabilið verið einstaklega gott hjá Hafnfirðingum.

„Þetta er búið að vera geðveikt. Allt frá kynningunni á Aroni og hvernig allt félagið vaknaði og bætti í,“ bætti Sigursteinn við þegar hann var spurður út í tímabilið.

Sigursteinn er staðráðinn í að halda dampi og hefur trú á að félagið geti haldið áfram á þessari vegferð.

„Einar Bragi er að fara en FH er bara stór klúbbur og þurfum að nýta okkur þetta á réttan hátt. Þurfum að bæta í og sjá til þess að þetta haldi áfram.“

Það er ljóst að það verða fagnaðarhöld hjá Hafnfirðingum í kvöld.

„Guð minn góður. Það er ótrúlegur hópur manna búinn að gera allt klárt í Krikanum fyrir eitthvað svakalegt. Það verður fram á morgun í tjaldinu,“ sagði Sigursteinn léttur í bragði þegar hann var spurður út í dagskrá kvöldsins.

Verður ryð í Hafnfirðingum í fyrramálið?

„Það má búast fastlega við því,“ sagði Sigursteinn glettinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×