Sport

Ólympíuboxarar munu líka fá peninga fyrir að komast á verð­launa­pall

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Frá ÓL í Tókýó 2020: Silfurhafinn Carlo Paalam frá Filippseyjum, gullverðlaunahafinn Galal Yafai frá Bretlandi og bronsverðlaunahafarnir Ryomei Tanaka frá Japan og Saken Bibossinov frá Kazakhstan.
Frá ÓL í Tókýó 2020: Silfurhafinn Carlo Paalam frá Filippseyjum, gullverðlaunahafinn Galal Yafai frá Bretlandi og bronsverðlaunahafarnir Ryomei Tanaka frá Japan og Saken Bibossinov frá Kazakhstan. Buda Mendes/Getty Images

Alþjóða hnefaleikasambandið hefur ákveðið að fylgja alþjóða frjálsíþróttasambandinu eftir og veita verðlaunahöfum á Ólympíuleikunum peningaverðlaun.

Frjálsíþróttasambandið varð fyrst til að tilkynna um peningaverðlaun til allra þeirra sem vinna gullverðlaun á Ólympíuleikunum í París í sumar. Alls er keppt í 48 greinum í frjálsum íþróttum og hver gullverðlaunahafi fær 50.000 bandaríkjadollara fyrir, sem gera um 7 milljónir króna. 

Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af fyrrum Ólympíuförum og öðrum. Forseti alþjóða hjólreiðasambandsins sagði ákvörðunina andstæða Ólympíuandanum. Fimmfaldi Ólympíumeistarinn Steve Redgrave setti sig einnig upp á móti áformunum og sagði þetta skapa sundrung meðal íþróttafólks.

Hnefaleikasambandið býður betur og ætlar að veita öllum verðlaunahöfum peningagjöf, 100.000 dollara fyrir gullverðlaun, 50.000 fyrir silfur og 25.000 fyrir brons.

„Íþróttafólk okkar og erfiðisvinna þeirra er mikils metin… Með þessu gefum við skýrt fordæmi um hvernig alþjóða sambönd skuli koma fram við íþróttafólk sitt. Þetta er alvöru stuðningur og alvöru aðgerðir, sem eru orðnar sjaldgæfar í alþjóða íþróttaheiminum,“ sagði Umar Kremlev, forseti alþjóða hnefaleikasambandsins þegar ákvörðunin var tilkynnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×