Atvinnulíf

„Ég nenni ekki að standa í ein­hverju veseni“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þögli herinn er alls staðar því fólk nennir ekki að standa í veseni eða þorir ekki að segja neitt. Fyrir vikið komast örfáir einstaklingar upp með hegðun eða frammistöðu sem ekki ætti að líðast, eða að minnihlutinn valtar yfir meirihlutann. Einn þeirra vinnustaða sem er að valdefla sitt fólk til að virkja þögla herinn til góðra verka, er framhaldsskólinn á Laugum þar sem Dr.Sigurbjörn Árni Arngrímsson íþróttalýsandi er skólastjóri.
Þögli herinn er alls staðar því fólk nennir ekki að standa í veseni eða þorir ekki að segja neitt. Fyrir vikið komast örfáir einstaklingar upp með hegðun eða frammistöðu sem ekki ætti að líðast, eða að minnihlutinn valtar yfir meirihlutann. Einn þeirra vinnustaða sem er að valdefla sitt fólk til að virkja þögla herinn til góðra verka, er framhaldsskólinn á Laugum þar sem Dr.Sigurbjörn Árni Arngrímsson íþróttalýsandi er skólastjóri. Vísir/Vilhelm

„Ég á það til dæmis til að tala svolítið mikið. Samt hef ég ekkert meiri rétt til þess að tala á kaffistofunni en starfsfólkið. Enda hef ég sagt við þau að þá verði þau bara að segja mér að þegja,“ segir dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólastjóri Framhaldsskólans á Laugum og íþróttalýsandi.

„Því í þessari vinnu höfum við lært betur að horfa inn á við, velt fyrir okkur hvað við getum sjálf gert betur eða öðruvísi frekar en að benda alltaf fingrinum á einhvern annan.“

Umræðuefnið er þögli herinn og sú vegferð sem vinnustaður fer í gegnum, þegar liðsheildin nær loksins að átta sig á því að þögli herinn er til staðar á hverjum vinnustað.

Og reyndar í samfélaginu öllu. Líka fjölskyldum og vinahópum.

„Það sem er svo erfitt við þetta þó, er að fólk áttar sig oft ekki á því að það tilheyrir þögla hernum. Það er partur af því líka að læra um það hvernig er hægt að virkja hann, þannig að breytingar nái fram að ganga.“

Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um þögla herinn.

Vildu stoppa baktal og fleira

Framhaldsskólinn að Laugum er rúmlega hundrað nemenda skóli. Til viðbótar teljast um þrjátíu starfsmenn og þar sem langflestir nemendur búa á heimavist, segir Sigurbjörn að í raun sé um einn stóran hóp að ræða: Starfsfólk og nemendur.

Í janúar á þessu ári, voru fyrstu skrefin stigin hjá starfsfólki að fræðast um þögla herinn og læra í kjölfarið, að virkja hann til góðra verka.

Hvernig kom það til?

„Við erum reglulega með námskeið og fræðslu fyrir starfsfólk, til dæmis á starfsdögunum okkar. En í þetta sinn langaði okkur að gera eitthvað öðruvísi þannig að við værum ekki að fá enn einn frábæra fyrirlesturinn, læra eitthvað nýtt á einu námskeiði og síðan bara: Búið,“ segir Sigurbjörn og bætir við:

„Við fengum því Sigríði hjá Saga Competence til að koma hingað í janúar. Síðan kom hún aftur um miðjan mars og aftur í maí og við vorum með ýmiss heimaverkefni að sinna líka í millitíðinni.“

Meðal verkefna voru til dæmis að ræða, móta og ákveða samskiptasáttmála fyrir vinnustaðinn, ræða hugmyndir um það hvernig hópurinn sæi fyrir sér að Laugar yrðu sem eftirsóttur vinnustaður í framtíðinni og hvað þyrfti þá að gera til að komast þangað og fleira.

Því auðvitað erum við sem vinnustaður búin að vera að glíma við ýmislegt undirliggjandi eins og oft er. 

Ég er búin að vera hérna í um níu ár og viðurkenni alveg að ákveðið baktal var hluti af því sem viðgekkst hér, sem er til dæmis eitthvað sem okkur er þá að takast betur að uppræta núna, þegar fyrir liggur hjá hópnum í heild sinni, hvernig vinnustað við viljum byggja upp.

Sigurbjörn segir að auðvitað hafi vinnustaðurinn Laugar glímt við sitthvað eins og allir vinnustaðir. Hins vegar telur hann það hafa hjálpað til að taka jákvæðara á ýmsum hlutum, að fara í þá vinnu sem felst í því að skilja um hvað þögli herinn snýst og valdefla starfsfólk.Vísir/Vilhelm

„Já en ég er B-týpa….“

Sigurbjörn segir að hugmyndin hafi verið að taka þessa vinnu út þessa önn og nú þegar liggi fyrir að halda henni áfram næsta haust og þá með þátttöku nemenda, sérstaklega í því verkefni að innleiða samskiptasáttmálann.

„Sumir telja það kannski vera eitthvað verkefni til að klára og tékka í boxið, að vinnustaður sé með samskiptasáttmála. En ef menn fara í svona verkefni af heilum hug, þá er þetta mjög snúið verkefni eitt og sér,“ segir Sigurbjörn og nefnir nokkur dæmi.

Til dæmis setninguna „að fagna fjölbreytileikanum.“

Hvað þýðir þetta spyrja sumir? 

Ef einhver mætir of seint í vinnuna að morgni, getur hann þá bara sagt: 

Já en ég er B-týpa, viljum við ekki fagna fjölbreytileikanum….?

„Það geta því verið orð í samskiptasáttmálanum sem sumum finnst afar mikilvæg, á meðan öðrum finnst jafnvel að þau eigi ekki að vera hluti af sáttmálanum eða túlka meiningu þeirra öðruvísi. Allt þetta þarf að ræðast.“

Þá segir Sigurbjörn það staðreynd, mögulega sérstaklega hjá opinbera geiranum, að sumir vilja halda sinni vinnu óbreyttri og án þess að taka tillit til breytinga.

Já, setningin „ég hef alltaf gert þetta svona og ætla bara að halda því áfram,“ er einfaldlega setning sem allir vinnustaðir þekkja frá einhverjum innanborðs hjá sér.

En málið er bara að þetta er ekki rétt. 

Því þótt þú hafir ákveðið frelsi til að gera hlutina eftir þínu höfði, til dæmis akademískt frelsi sem kennari, þá hefur enginn rétt á því á sínum vinnustað að fylgja ekki eftir stefnu vinnustaðarins og einfaldlega segjast ætla að vinna allt öðruvísi.“

Til frekari útskýringar segir Sigurbjörn.

„Þegar hópur hefur tekið ákvörðun um einhverja stefnu, ber öllum sem starfa á vinnustaðnum að fylgja þeirri stefnu eftir og eina frelsið sem viðkomandi hefur, er þá frelsi innan þess ramma sem stefnan leyfir. Ef þessu er ekki fylgt eftir, þarf viðkomandi einfaldlega að skoða að vinna annars staðar.“

Þegar þögli herinn fær rödd

Sigurbjörn segir það vissulega hjálpa, að fá utanaðkomandi fagaðila til að leiða vinnuna. Það hjálpi hópnum í heild sinni að taka málin ekki nærri sér eða persónulega.

„Og þótt þessari vinnu sé ekki lokið, hefur hún nú þegar skilað ýmsum árangri. Við erum til dæmis í því verkefni að vera að innleiða ákveðið kerfi. Sem sumir hafa einfaldlega ekki viljað vera partur af en með því að hlusta á Sigríði, áttaði fólk sig kannski á því hvar það var statt í því ferli sem breytingarferli er á hverjum vinnustað.“

Liðir í breytingarferli eru til dæmis sorgartímabil, tímabil afneitunar eða ótta og fleira.

„Að hlusta á fræðslu sem hjálpar manni að átta sig á því hvar maður er sjálfur staddur í ferlinu, felur í sér svo mikla hjálp í því að taka þá jákvæð skref, sem í þessu tilfelli snerist kannski um þá ákvörðun að taka þátt í innleiðingu á kerfi.“

Sigurbjörn segir þjálfunina í að uppræta þögla herinn líka mikilvægan. Og þar skipti máli að vinnunni sé tekið alvarlega.

„Því þegar hópurinn hefur tekið ákvörðun og ég tala nú ekki um þegar samskiptasáttmáli liggur fyrir, líðst það ekki lengur að einhver segi bara: Nei, ég ætla að gera þetta svona. Því þá geta aðrir sagt, án þess að þeir komi stjórnun nokkuð við: Nei, það er ekki í boði að þú gerir þetta svona. Því hópurinn er búinn að taka ákvörðun um annað og þá verður þú að fylgja því.“

Þannig segir Sigurbjörn að þögli herinn sé smátt og smátt að læra á að hafa sína rödd, þannig að vandamál nái ekki fótfestu og leiði til meðvirkni eins og svo algengt er á vinnustöðum.

„Eitt námskeiðið fólst til dæmis sérstaklega í því að valdefla okkur, þannig að við hefðum hugrekki til að setja heilbrigð mörk og lærðum þá hvernig við gætum beitt okkur, þegar við erum að setja okkur mörk.“

Sem dæmi segir Sigurbjörn.

„Oft er það til dæmis þannig á vinnustöðum að fólk heldur sig bara til hlés og hugsar: Nei ég nenni ekki að standa í neinu veseni. Er þetta ekki bara eitthvað stjórnendadæmi, á stjórnandinn ekki að leysa úr þessu? og svo framvegis. Sem vissulega á oft við, en alls ekki alltaf. Því þegar þögli herinn hefur fengið rödd, er auðvelt að segja: ,,Nei, það er búið að ákveða að gera þetta svona og þú verður að fylgja því,“ eða ,,Þetta er nú ekki orðræða sem okkur er sæmandi,“ og þá með tilvísun í samskiptasáttmálann þegar það á við.“

Sigurbjörn segir vinnuna hafa verið af hinu góða og margt skemmtilegt meira að segja verið ákveðið.

„Eitt af því sem kom til dæmis óvænt upp, var umræða um áfengiskaup skólans þegar gleðskapur er. Sem sumum finnst ekki við hæfi að við sem skóli séum að eyða peningum í. Þannig að úr varð að endurskoða þetta, að minnsta kosti að prófa eitthvað annað. Til dæmis frekar að nota peninginn í að greiða fyrir starfsmenn á þorrablót skólans eða eitthvað annað. Þetta er dæmi um hugmynd sem kom í rauninni óvænt en hafði aldrei heyrst fyrr en búið var að opna huga og hjarta varðandi alls konar mál.“

Annað dæmi sem Sigurbjörn nefnir er hvaða útfærsla var ákveðin sem meginþema samskiptasáttmálans.

„Auðvitað tók mesta tímann að móta sáttmála sem hópurinn teldi í samræmi við okkar gildi, orða hann og svo framvegis. En við ákváðum síðan að sáttmálinn yrði mjög myndrænn. Þannig að við værum að nota myndir af gírafa eða sjakala eftir því hvað á við. Sem getur þá mögulega auðveldað orðræðuna. Einhver myndi kannski segja við einhvern annan: Hva… ætlar þú að vera gírafinn í þessu máli eða sjakalinn?“

Sigurbjörn segir engan starfsmann á neinum vinnustað hafa frelsi til að gera hlutina eftir sínu höfði, nema það frelsi sé innan þess ramma sem stefna vinnustaðarins kveður á um. Sumir komist þó upp með það, neita til dæmis að nota kerfi eða annað slíkt sem verið er að innleiða. Á algengum vandamálum sem þessum er tekið þegar unnið er að því að virkja þögla herinn til góðra verka.Vísir/Vilhelm

Með heilum hug

Sigurbjörn segir hópinn vissulega hafa lært ýmislegt annað merkilegt á síðustu árum og oft farið í alls kyns góða vinnu, til dæmis á starfsdögum.

„En til að uppræta ákveðna hluti hér, hefur þessi vegferð vissulega hjálpað okkur og gert hlutina léttari en þeir hefðu annars verið. Við finnum mikinn mun á ýmsu, bara það eitt að bera saman ákveðin mál eins og þau voru á haustönn en eru núna á vorönn eru að sýna okkur að vinnan er að skila árangri.“

Þá segist Sigurbjörn mæla með því að vinnustaðir taki svona vegferð miðað við einhvern ákveðinn tíma, en ekki aðeins á einum degi.

„Reynslan hefur líka sýnt að í raun þurfum við að minnsta kosti 21 dag til að móttaka og ná einhverju nýju fram sem við erum að læra.“

Sitt allra mikilvægasta ráð fyrir aðra vinnustaði, segir Sigurbjörn hins vegar felast í heilindunum.

„Það skiptir öllu máli af hálfu stjórnenda að í þessa vegferð er verið að fara af heilum hug og að þetta sé vinna sem öllum ber að taka alvarlega. Það þýðir að það er ekki í lagi að sinna ekki heimaverkefni sem búið er að ákveða að ræða, eða að sitja bara á vinnustofum og vera bara í símanum. Auðvitað er ekki hægt að neyða neinn í neitt, en það skiptir þó miklu máli að undirtónninn sé alveg skýr um það, að þetta sé þó verkefni sem ætlast er til að allir taki þátt í af heilum hug.“


Tengdar fréttir

Forstjóri Isavia: „Ein af mínum glímum er forðunarhegðun“

„Vissulega er það skrýtin upplifun að sitja með mínu fólki á fundi og segja „Ég heiti Sveinbjörn og ein af mínum glímum er forðunarhegðun.“ En ég er einfaldlega sannfærður um að ef ætlunin er að ná enn meiri árangri, snýst stóra verkefnið einfaldlega um að byrja á því að breyta hjá manni sjálfum,“ segir Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia.

„Þar eru leiðtogar sem virðast hafa eitthvað extra“

„Það gerist oft í krísum að við áttum okkur á því að mögulega þarf vinnustaður að breyta vinnustaðamenningunni. Því það er í krísum sem við áttum okkur á því hvað hjá okkur er ekki að virka,“ segir Eyþór Eðvarðsson stjórnendaþjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun.

Leiðtogaþjálfun: „Þetta er eins og taka til í geymslunni“

„Þetta er eins og taka til í geymslunni; henda út hlutum sem við viljum ekki nota og setja inn nýtt,“ segir Jón Jósafat Björnsson meðal annars um þau tuttugu atriði sem eru nefnd sérstaklega í leiðtogaþjálfun Dale Carnegie, sem unnið var í samvinnu við Marshcall Goldsmiths.

Z kyn­slóðin er allt öðru­vísi en eldri kyn­slóðir og mun breyta öllu

„Við þurfum alltaf að taka samtalið. Við þurfum alltaf að passa að vera í samráði við unga fólkið því að þau munu breyta öllu. Z kynslóðin, sem nú er 10 til 27 ára, er kynslóð sem er allt öðruvísi en kynslóðin sem er ríkjandi stjórnendahópur í dag,“ segir Anna Steinsen einn eigandi KVAN.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×