Innlent

Tvö látin en ekkert bendi til saknæms at­burðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Bolungarvík á Vestfjörðum.
Frá Bolungarvík á Vestfjörðum. Vísir/Arnar

Lögreglan á Vestfjörðum segir ekkert benda til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað í Bolungarvík í gær. Lögreglan hefur til rannsóknar andlát tveggja einstaklinga í heimahúsi í bænum en um er að ræða sambýlisfólk á sjötugsaldri.

Óskað var eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu auk réttarmeinafræðings til að taka þátt í vettvangsrannsókn lögreglu og lauk henni í nótt. Í kjölfar þess mun fara fram réttarmeinafræðileg rannsókn á líkunum.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn haldi áfram og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að sinni. Eins og staðan sé núna bendi ekkert til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað.

Fyrr í morgun var sagt frá því að enginn væri í haldi vegna málsins. Tæknideildinni var flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur í gær. Samkvæmt heimildum Vísis sáust lögreglumenn fara inn í húsið með því að fjarlægja spónaplötu yfir glugga.


Tengdar fréttir

Lögregla rannsakar andlát í Bolungarvík

Lögreglan á Vestfjörðum kallaði í kvöld eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla til rannsóknar andlát í Bolungarvík. Lögreglustjóri vill lítið sem ekkert tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×