Barcelona Evrópu­meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barcelona er Evrópumeistari annað árið í röð.
Barcelona er Evrópumeistari annað árið í röð. Ramsey Cardy/Getty Images

Barcelona er Evrópumeistari kvenna í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Leikið var á San Mamés-vellinum á Spáni og mátti búast við hörkuleik milli tveggja liða sem eru án efa tvö bestu knattspyrnulið Evrópu undanfarin ár. Fara þarf aftur til ársins 2015 til að finna annan sigurvegara en liðin tvö sem léku til úrslita í dag.

Það var ljóst hvað var undir en hvorugt lið vildi opna sig í fyrri hálfleik, staðan því markalaus þegar gengið var til búningsherbergja. Í síðari hálfleik reyndust Börsungar hins vegar sterkari og má segja að tvær af bestu knattspyrnukonum heims undanfarin ár hafi skorið úr um hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Aitana Bonmatí kom Barcelona yfir á 63. mínútu með skoti úr þröngu færi eftir undirbúning Mariona Caldantey og staðan orðin 1-0. Bonmatí er óumdeilanlega besta knattspyrnukona heims um þessar mundir en hún hefur unnið öll stóru einstaklingsverðlaunin. 

Hún hafði þó heppnina með sér að þessu sinni þar sem skot hennar fór af varnarmanni og þar með yfir hjálparlausa Christiane Endler í marki Lyon.

Bæði lið gerðu fjölda skiptinga, Barcelona til að halda forystunni og Lyon til að jafna metin. Það tókst Frökkunum ekki og á þriðju mínútu uppbótartíma gulltryggði Alexia Putellas - sem hafði komið af bekknum örfáum mínútum áður - sigur Barcelona með föstu skoti eftir sendingu Cláudia Pina. 

Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur. Barcelona ver því Evróputitil sinn og hefndi fyrir tapið árið 2022 þar sem Lyon vann nokkuð óvænt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira