Skoðun

Fjöldi fyrir­tækja hætta með Ra­pyd

Oddný Björg Rafnsdóttir skrifar

Ísraelski færsluhirðirinn Rapyd er með útibú á Íslandi. Mörg fyrirtæki og stofnanir hér á landi kaupa þjónustu af Rapyd fyrir færsluhirðingu á greiðslukortum. Það er hinsvegar að breytast hratt vegna þess að móðurfyrirtækið í Ísrael tekur beinan þátt í hernaðinum á Gaza, hefur lýst miklum stuðningi við stríðið og sagt að mannfallið þar skipti engu máli.

Flestum Íslendingum finnst þessi manndráps- og hernaðarhyggja ólíðandi og viðbjóðsleg og vilja þess vegna ekki skipta við fyrirtæki sem nota Rapyd.

Samkvæmt skoðanakönnun Maskínu vilja um 60% Íslendinga alls ekki versla við fyrirtæki sem nota Rapyd og aðeins 6% landsmanna vilja skipta við þau.

Á síðunni http://hirdir.is safnar fólk saman upplýsingum um fyrirtæki sem nota og nota ekki Rapyd. Fyrir hinn almenna neytenda er vefsíðan Hirðir.is eina leiðin til að vita hvort verið sé að skipta við Rapyd eða ekki, þar sem Rapyd hefur látið fjarlægja lógóið sitt af posum. Ef fyrirtækið er ekki inni á Hirði er um að gera að afla upplýsinga og skrá það.

Á Hirði má sjá að hunduð fyrirtækja virða þennan vilja okkar neytenda og hafa hætt viðskiptum við Rapyd eða eru að vinna í að skipta. Þannig hafa á undanförnum vikum stóru verslanakeðjurnar Hagar, Byko, Fagkaup og Samkaup tilkynnt að þær séu búnar að semja við nýjan færsluhirði og breytinga þar af leiðandi að vænta hjá þeim. Þar bætast þær í hóp fjölmargra fyrirtækja sem búin eru að skipta, eins og til dæmis, IKEA, Lyf og heilsa, Apótekarinn og Gæludýr.is

En betur má ef duga skal. Enn eru allt of mörg fyrirtæki og stofnanir að skipta við Rapyd. Við þurfum því að halda áfram að þrýsta á þau og hvetja til að hætta þeim viðskiptum.

Ég satt að segja skil ekki hvernig stjórnendur fyrirtækja og stofnana geta réttlætt það fyrir sér og sínu starfsfólki að skipta við Rapyd, fyrirtæki sem er beinn þátttakandi í þjóðarmorði.

Hvar er samkenndin og samfélagsábyrgðin?

Góðu fréttirnar eru þær að fjöldi fyrirtækja og stofnana eru þegar hætt að notast við Rapyd og mörg eru á þeirri leið. Þau fyrirtæki sem eftir eru hvet ég til að gera eitthvað í málinu - strax í dag.

Það er ekki margt sem ég get gert, frá innsveitum norðanlands, til að aðstoða nauðstadda á Gaza annað en að nota rödd mína og reyna að stjórna því hvert peningarnir mínir fara. Ég ætla að gera mitt allra besta.

Höfundur er friðarsinni sem hefur ekki áhuga á að styðja þjóðarmorð.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×