Innlent

Náttúran helsta á­stæðan fyrir ferða­lögum til Ís­lands

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tveir af hverjum þremur ferðamönnum sem heimsóttu Ísland í fyrra ferðuðust um Reykjanesið.
Tveir af hverjum þremur ferðamönnum sem heimsóttu Ísland í fyrra ferðuðust um Reykjanesið. Vísir/Vilhelm

Erlendir ferðamennn sóttu Ísland einna helst vegna náttúrunnar í fyrra. Langflestir heimsóttu höfuðborgarsvæðið og Suðurland en þrettán prósent lögðu leið sína á Vestfirði.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem ferðamálastofa lét gera meðal erlendra ferðamanna og Morgunblaðið greinir frá í morgun.

Þar segir að 97 prósent svarenda hafi sagt náttúruna hafa haft áhrif að miklu eða einhverju leyti á þá ákvörðun að ferðast hingað til lands.

Áhugi á norðurslóðum hafði áhrif á 84,6 prósent og náttúrutengd afþreying á tæp 80 prósent svarenda. Tæp sextíu prósent höfðu þá fengið meðmæli frá vinum eða ættingjum um að ferðast til landsins. 

Þá hafi ferðamennirnir dvalið að meðaltali sjö nætur á landinu, sem er aðeins styttra en árið á undan.

Níutíu prósent heimsóttu höfuðborgarsvæðið, fjórir af hverjum fimm ferðuðust um Suðurland, tveir af þremur um Reykjanesið, tæplega helmingur um Vesturland, tæplega þriðjungur um Norðurland, tæp þrjátíu prósent um Austurland og 13 prósent um Vestfirði.

Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að sjö af hverjum tíu hafi svarað því til að Íslandsheimsóknin hafi farið fram úr væntingum. Þá virðast erlendir ferðamenn duglegir að nýta fjölbreytta afþreyingarmöguleika. 56,2 prósent höfðu farið í náttúruböð, 40 prósent nýtt sér spa- eða dekurmeðferðir, 34 prósent farið á söfn, 33 prósent farið í skoðunarferð með rútu og 21 prósent farið í sund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×