Fótbolti

Leik­maður Bayern á tíma­mótum eftir að Le­verku­sen varð meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vanur að fá gull á vorin en þarf núna að sætta sig við silfur eða brons.
Vanur að fá gull á vorin en þarf núna að sætta sig við silfur eða brons. David S. Bustamante/Getty Images

Franski vængmaðurinn Kingsley Coman er þessa dagana að ganga í gegnum eitthvað sem hann hefur aldrei þurft að glíma við á annars farsælum ferli sínum. Hann stendur ekki uppi sem landsmeistari í vor, eitthvað sem hann hefur gert allar götur síðan hann hóf að leika með París Saint-Germain tímabilið 2012-13.

Hinn 27 ára gamli Coman hefur spilað með PSG í Frakklandi, Juventus á Ítalíu og Bayern München á ferli sínum. Eins ótrúlega og það kann að hljóma hafði hann orðið landsmeistari frá því hann hóf að spila með aðalliði PSG fyrir rúmum áratug síðan.

Alls hefur Frakkinn orðið deildarmeistari ellefu sinnum á ferli sínum. Hann varð tvívegis meistari með PSG, tvívegis með Juventus og undanfarin átta ár með Bayern. Á því varð breyting í ár þar sem Bayer Leverkusen vann þýsku úrvalsdeildina með miklum yfirburðum.

Vængmaðurinn á að baki 55 A-landsleiki fyrir Frakkland var hluti af hópnum sem mátti sætta sig við silfur á EM 2016 en var ekki í hópnum sem vann HM 2018. Hann hlaut þá silfur með Frökkum á HM 2022.

 Ásamt deildartitlunum ellefu varð hann ítalskur bikarmeistari einu sinni, þýskur bikarmeistari þrívegis ásamt því að vinan Meistaradeild Evrópu og HM félagsliða einu sinni.

Coman hefur ekki átt sitt besta tímabil og þá missir hann af leiknum mikilvæga gegn Arsenal í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld. Sá verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 en staðan í einvíginu er 2-2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×