Innlent

Otti Rafn segir af sér for­mennsku í Landsbjörg

Jón Þór Stefánsson skrifar
Otti Rafn er Grindvíkingur, en hann hefur verið í leyfi frá því í nóvember.
Otti Rafn er Grindvíkingur, en hann hefur verið í leyfi frá því í nóvember. Vísir/Vilhelm

Otti Rafn Sigmarsson hefur tilkynnt að hann hyggist segja formlega af sér sem formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Það gerði hann á stjórnarfundi Landsbjargar í kvöld.

Otti Rafn hefur frá því í nóvember síðastliðnum verið í leyfi frá formennsku, sökum afleiðinga þeirra náttúruhamfara sem geisað hafa í og við heimabæ hans, Grindavík.

„Otti Rafn sér sér ekki fært að sinna formennsku af þeim krafti sem hann hafði metnað til vegna þeirra verkefna sem náttúran í raun varpaði í fang hans. Fjölskylda, atvinna og fyrirsjáanleg uppbygging verða á þessum tíma að hafa forgang.“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að stjórn Slysavarnafélagsins hafi samþykkt ákvörðun hans einróma á fundinum að varaformaður, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, sem gengt hefur störfum formanns í fjarveru Otta Rafns, verði nýr formaður tímabundið fram að næsta landsþingi, sem fram fer í maí 2025.

Í stað Borghildar kemur Jón Ingi Sigvaldason inn sem varaformaður, en það er einnig tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×