Fótbolti

Ein­kunnir Ís­lands: Albert og Hákon bestir í grátlegu tapi

Íþróttadeild Vísis skrifar
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola grátlegt tap í kvöld.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola grátlegt tap í kvöld. Mateusz Slodkowski/Getty Images

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu missti af sæti á EM á grátlegan hátt er liðið mátti ola 2-1 tap gegn Úkraínu í kvöld.

Íslenska liðið spilaði vel stærstan hluta leiksins og náði forystunni eftir hálftíma leik þegar Albert Guðmundsson skoraði glæsilegt mark með skoti fyrir utan teig.

Úkraínumenn sóttu hins vegar stíft í síðari hálfleik, en íslenska vörnin stóð að miklu leyti vel. Viktor Tsygankov jafnaði hins vegar metin fyrir Úkraínu á 54. mínútu eftir snögga sókn áður en Mykhailo Mudryk tryggði liðinu farseðilinn á EM á kostnað Íslendinga með svipuðu marki á 84. mínútu. EM-draumur Íslands er þar með úr sögunni.

Einkunnir Íslands í leiknum:

Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður 7

Öruggur í flestum sínum aðgerðum framan af leik og á teiginn þegar andstæðingar Íslands koma með fyrirgjafir. Mögulega er hægt að setja spurningamerki við staðsetningar Hákons í báðum mörkum úkraínska liðsins.

Guðmundur Þórarinsson, vinstri bakvörður 5

Hleypti Viktor Tsygankov full auðveldlega inn að miðju í jöfnunarmarki Úkraínu og hefur klárlega átt betri daga í íslensku treyjunni. Var svo tekinn af velli stuttu eftir fyrra mark Úkraínu.

Daníel Leó Grétarsson, miðvörður 6

Svaraði ágætlega fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn Ísrael og átti fína kafla í miðverðinum.

Sverrir Ingi Ingason, miðvörður 7

Stóð vaktina nokkuð vel í miðverðinum og er mikill leiðtogi inni á vellinum. Nældi sér í spjald eftir tæplega klukkutíma leik sem hann hefði líklega getað sleppt.

Guðlaugur Victor Pálsson, hægri bakvörður 6

Fékk það erfiða verkefni að eltast við eldsnöggan Mykhailo Mudryk og átti það til að lenda á eftir Chelsea-manninum.

Jóhann Berg Guðmundsson, miðjumaður (fyrirliði) 6

Skilaði fínu dagsverki en höfum oft séð betri frammistöðu frá fyriliðanum.

Arnór Ingvi Traustason, miðjumaður 6

Iðinn eins og oft áður inni á miðsvæðinu og skilaði sínu.

Jón Dagur Þorsteinsson, vinstri kantur 8

Var ógnandi í sóknarleik Íslands og átti tvö góð skot á markið sem neyddu Andriy Lunin, markvörð Úkraínu og Real Madrid, í góðar vörslur.

Hákon Arnar Haraldsson, hægri kantur 8

Átti stóran þátt í marki Íslands og sýndi oft og tíðum snilldar takta. Gerði úkraínska liðinu oft erfitt fyrir, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Andri Lucas Gudjohnsen, framherji 7

Fékk úr litlu að moða, en ótrúlega iðinn í fremstu víglínu. Vann hvern skallaboltann á fætur öðrum en vantaði oft menn til að taka seinni boltann.

Albert Guðmundsson, framherji 8

Sýndi enn og aftur hversu mikilvægur hann er fyrir íslenska liðið. Skoraði alvöru mark á 30. mínútu með glæsilegu skoti, sem dugði reyndar því miður ekki til.

Varamenn:

Kolbeinn Finnsson kom inn á fyrir Guðmund Þórarinsson á 63. mínútu 6

Kom inn á með ferska fætur og fór margar ferðir upp og niður vinstri kantinn. Náði þó ekki að skapa mikið fyrir liðsfélaga sína.

Orri Steinn Óskarsson kom inn á fyrir Andra Lucas Guðjohnsen á 63. mínútu 5

Kom inn á í erfitt hlutverk fyrir Andra Lucas, en náði ekki að fylgja því jafn vel eftir.

Mikael Neville Anderson kom inn á fyrir Hákon Arnar Haraldsson á 87. mínútu.

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn.

Mikael Egill Ellertsson kom inn á fyrir Jón Dag Þorsteinsson á 87. mínútu.

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn.


Tengdar fréttir

„Vorum grát­lega ná­lægt þessu“

„Akkúrat núna er þetta mjög þungt. Vorum grátlega nálægt þessu. Mjög þungt,“ sagði Arnór Ingvi Traustason eftir 2-1 tap gegn Úkraínu sem þýðir að Evrópudraumur Íslands er úr leik.

„Eins og gæi sem var með vesen á Astró svona 2002“

Ísland mátti þola súrt 2-1 tap gegn Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM 2024. Ísland komst yfir þökk sé glæsimarki Alberts Guðmundssonar í fyrri hálfleik en Úkraína skoraði tvö í þeim síðari og er komið á EM í Þýskalandi nú í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×