Fótbolti

Sout­hgate talar um krísu á meðan Wal­ker gæti spilað næsta leik Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Southgate er á leið á sitt fjórða stórmót sem þjálfari Englands. Hann vonast til að leikmenn verði búnir að jafna sig af meiðslum áður en EM 2024 hefst.
Gareth Southgate er á leið á sitt fjórða stórmót sem þjálfari Englands. Hann vonast til að leikmenn verði búnir að jafna sig af meiðslum áður en EM 2024 hefst. Richard Sellers/Getty Images

Gareth Southgate segist aldrei hafa lent í annarri eins meiðslakrísu og enska karlalandsliðið í knattspyrnu glímir nú við. Á sama tíma kom fram að Kyle Walker ætti að vera klár í stórleik Manchester City og Arsenal um næstu helgi.

England tapaði á dögunum 1-0 fyrir Brasilíu í vináttuleik. Í kjölfarið drógu nafnarnir Harry Kane (Bayern München) og Maguire (Manchester United) sig úr enska landsliðinu. Sömu sögu er að segja af Kyle Walker (Man City) sem er þó minna meiddur en fyrst var óttast.

Sky Sports hefur greint frá því að hinn 33 ára gamli Walker verði að öllum líkindum við hestaheilsu þegar Man City fær Arsenal í heimsókn næstkomandi sunnudag. Liðin eru í harðri baráttu við Liverpool um enska meistaratitilinn.

Sky Sports greindi einnig frá því fyrr í dag að Southgate ætti engin svör við öllum þeim meiðslum sem væru að hrjá leikmenn enska landsliðsins um þessar mundir. Liðið mætir Belgíu í vináttuleik annað kvöld og er án allt að 15 leikmanna sem Southgate myndi að öllu jafna velja í hóp sinn.

Ásamt þeim Kane, Maguire og Walker þá dró Bukayo Saka sig úr landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Brasilíu ásamt því að markvörðurinn Sam Johnstone (Crystal Palace) meiddist. Það er talið ólíklegt að hann verði klár fyrir EM í sumar.

Nick Pope, Kieran Trippier (báðir Newcastle United), Luke Shaw (Man Utd) Reece James, Levi Colwill (báðir Chelsea) Marc Guehi (Crystal Palace), Tyrone Mings (Aston Villa), Trent Alexander-Arnold (Liverpool) Jack Grealish (Man City) og Callum Wilson (Newcastle) eru einnig á meiðslalistanum.

„Þetta er ótrúlegur fjöldi. Ég hef aldrei upplifað annað eins. En þetta þýðir að það eru tækifæri fyrir aðra leikmenn. Við sáum leikmenn stíga upp gegn Brasilíu og grípa gæsina,“ sagði Southgate á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×