Fótbolti

Jóhann og Arnór æfðu en ekki Gulli og sungið fyrir Ísak

Sindri Sverrisson skrifar
Æfing landsliðsins í Búdapest í dag.
Æfing landsliðsins í Búdapest í dag. vísir/Stefán Árni

Ekki taka allir þátt í æfingu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í Búdapest í dag, í aðdraganda úrslitaleiksins við Úkraínu um sæti á EM í Þýskalandi.

Góðu fréttirnar eru þær að fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson og félagi hans á miðjunni, Arnór Ingvi Traustason, eru með á æfingunni.

Jóhann missti af leiknum við Ísrael vegna meiðsla í læri og Arnór Ingvi fór meiddur af velli í 4-1 sigrinum góða, eftir að hafa skorað afar mikilvægt mark.

Verra mál er þó kannski að Guðlaugur Victor Pálsson er ekki með á æfingunni í dag, en það þarf þó ekki að þýða að óvissa ríki um hans þátttöku í úrslitaleiknum á þriðjudaginn. Hann sást aðeins á gangi í kringum völlinn. 

Arnór Sigurðsson er farinn heim eftir að hafa meiðst gegn Ísrael.

Guðlaugur Victor Pálsson á gangi um æfingasvæðið í dag.vísir/Stefán Árni

Á æfingunni í dag reyndi einnig á raddbönd manna því Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar 21 árs afmæli í dag. Leikmenn og þjálfarar, þar á meðal Jóhannes Karl Guðjónsson pabbi Ísaks, sungu að sjálfsögðu fyrir afmælisbarnið sem lék sinn 25. A-landsleik í fyrrakvöld

Íslenska landsliðið heldur kyrru fyrir í Búdapest eftir sigurinn gegn Ísrael og æfði þar í dag.vísir/Stefán Árni


Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×