Um­fjöllun og við­töl: Valur - ÍA 5-6 | Skaga­menn unnu eftir vítaspyrnukeppni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í sínum fyrsta leik í Valstreyjunni. 
Gylfi Þór Sigurðsson í sínum fyrsta leik í Valstreyjunni.  Vísir/Hulda Margrét

Skagamenn báru sigurorð af Val þegar liðin áttust við í undanúrslitum Lengjubikars karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Það þurfti vítaspyrnukeppni til þess að útkljá leikinn.

Staðan var 1-1 þegar mínúturnar 90 og uppbótartíminn var liðinn og úrslitin réðust af þeim sökum á vítapunktinum. 

Albert Hafsteinsson kom Skagamönnum yfir eftir tæplega stundarfjórðungs leik en hann skoraði þá með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Albert fékk nægan tíma til þess að athafna sig inni í vítateig Valsmanna og kláraði færið vel.

Það var svo Tryggvi Hrafn Haraldsson sem jafnaði metin fyrir Val þegar hann rak smiðshöggið á góða skyndisókn Valsliðsins. Tryggvi Hrafn skoraði með föstu skoti sem Árni Marínó Einarsson réð ekki við.

Ekkert var skorað í seinni hálfleik og staðan þar af leiðandi 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Farið var beint í vítaspyrnukeppni og þar var það Skagaliðið sem var sterkara á svellinu.  

Árni Marínó varði vítaspyrnu Adams Ægis Pálssonar í fyrstu umferð vítaspyrnukeppninnar en vítin þar á eftir rötuðu rétta leið í markið. 

Adam Ægir sár og svekktur eftir að Árni Marínó sá við honum. Vísir/Hulda Margrét
Valsmenn taka á móti Adam Ægi eftir vítaklúðrðið. Vísir/Hulda Margrét
Arnór Smárason ánægður með sitt kvöldverk á vítapunktinum. Vísir/Hulda Margrét

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Val í kvöld en hann kom inná þegar þegar rúmlega 20 mínútur voru eftir af leiknum. Gylfi Þór skoraði úr sinni vítaspyrnu en það dugði ekki til fyrir Valsmenn. 

Gylfi Þór kemur hér inná í sínum fyrsta leik í meistaraflokki á Íslandi. Vísir/Hulda Margrét
Gylfa Þór brást ekki bogalistin af vítapunktinum frekar en fyrri daginn. Vísir/Hulda Margrét

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, á hliðarlínunni. Vísir/Hulda Margrét

Jón Þór: Sáttur við holninguna á liðinu

„Mér fannst við byrja þennan leik vel og létum boltann ganga vel á milli okkar. Við uppskárum gott mark eftir flotta sókn. Eftir markið sem við skoruðum þá misstum við aðeins kjarkinn í að halda í boltann og gáfum færi á okkur,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, að leik loknum. 

„Við komum hins vegar sterkir inn í seinni hálfleikinn og áttum stangarskot og fleiri færi. Þegar líða tók á leikinn dró svo aðeins af okkur enda langt síðan við spiluðum og Valsmenn náðu að þrýsta okkur svolítið aftarlega. Við héldum hins vegar út og kláruðum leikinn í vító,“ sagði Jón Þór enn fremur. 

„Ég var ánægður með holninguna á liðinu heilt yfir og svo erum við nokkra leikmenn utan leikmannahóps vegna meiðsla í dag sem koma inn á næstu vikum. Það er gott að fá auka keppnisleik og eiga sjéns á að vinna mótið,“ sagði Skagamaðurinn um framhaldið. 

Arnar Grétarsson: Boltinn gekk full hægt á köflum

„Framan af leik gekk boltinn allt of hægt og við vorum of mikið að spila til hliðar og til baka. Við löguðum það hins vegar þegar líða tók á leikinn og ég er sáttur við það. Við fórum vel yfir hlutina í hálfleik og fundum millisvæðin betur í þeim seinni og komumst meira bakvið þá,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals. 

„Það er erfitt að brjóta á bak aftur Skagaliðið sem verst í 5-4-1 og sækir svo hratt á þig þegar þeir vinna boltann. Við sköpum fullt af færum fyrir utan markið sem við skorum og hefðum átt að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Það gerðist aftur á móti ekki og þegar út í vító kemur getur allt gerst,“ sagði Arnar um þróun leiksins. 

Aðspurður um hvernig honum hefði fundist innkoma Gylfa Þórs sagði Arnar: „Gylfi Þór kom bara vel inn í þetta hjá okkur og ég er bara ánægður heilt yfir með braginn á liðinu síðasta hálftímann í leiknumm. Boltinn gekk hratt og við áttum margar góðar sóknir. Það er ánægjulegt að það kom ekkert bakslag í meiðslin hjá Gylfa og nú höldum við áfram að byggja hann upp líkamlega fram að móti.“  

Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eftir að félagaskipti Gylfa Þórs voru tilkynnt. Valur

Af hverju vann ÍA?

Heilsteypt flott frammistaða Skagaliðsins þar sem liðið sýndi á sér tvenns konar hliðar með því annars vegar að halda vel í boltann og byggja upp góðar sóknir frá öftustu línu og hins vegar að verjast vel í lágpressu og sækja hratt í kjölfarið skilaði liðinu í vítapsyrnukeppni. Þar voru það öruggar vítaspyrnur og Árni Marínó sem skilaði liðinu yfir línuna. 

Hverjir sköruðu fram úr? 

Guðfinnur Þór Leósson átti flottan leik inni á miðsvæðinu hjá Skagamönnum en hann spilaði líkt og þindarlaus maður. Var öflugur bæði í vörn og sókn og skilaði sér inn í boxið hjá Valsmönnum þegar það átti við. Guðfinnur Þór var óheppinn að skora ekki í leiknum en skot hans fór í stöngina. 

Þá var Árni Marínó góður bæði í venjulegum leiktíma og vann fyrir kaupinu sínu í vítaspyrnukeppninni. Oliver Stefánsson var eins og klettur í vörn Skagamanna og Albert Hafsteinsson var skeinuhættur á vinstri kantinum. 

Hjá Valsmönnum var Aron Jóhannsonn iðinn við að skapa færi og koma sér sjálfur í þau. Lúkas Logi Heimissson átti góða spretti og Jónatan Ingi Jónsson minnti á sig með því að koma sér í góðar stöður í seinni hálfleik.  

Valsmenn sóttu af krafti í seinni hálfleik. Vísir/Hulda Margrét
Aron Jóhannsson og Viktor Jónsson í baráttunni í leiknum. Vísir/Hulda Margrét

Hvað gekk illa?

Valsmönnum gekk illa að klára sóknirnar sínar í þessum leik en það vantaði oft og tíðum síðustu betri gæði í síðustu sendinguna eða betri slútt til þess að gera út um leikinn í venjulegum leiktíma. Þá var varnarleikurinn í marki Skagans ekki til útflutnings. 

Hvað gerist næst?

Skagamenn næta Blikum í úrslitaleik Lengjubikarsins miðvikudaginn 27, mars. Næsti mótsleikur hjá Val er meistara meistaranna á móti Víkingi sem fram fer mánudaginn 1. apríl.  

Skagamenn fagna sigrinum vel og innilega. Vísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira