Innlent

Endur­skoða aðgangstakmarkanir á morgun

Oddur Ævar Gunnarsson og Telma Tómasson skrifa
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Vísir/Einar

Vel hefur gengið á hættusvæðinu við Svartsengi og í Grindavík í dag. Þó hefur verið töluverð mengun á svæðinu og verða aðgangsreglur inn í Grindavík endurskoðaðar á morgun.

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Hann segir að orkuver HS Orku hafi verið rýmt í morgun vegna mengunar en rýmingin hafi gengið vel. Að öðru leyti hafi gengið vel.

„Ég hef nú ekki heyrt af neinum vandræðagangi, ég held að þetta gangi nú alveg ágætlega. Það er bara þessi vinna við lokunarpósta og í sjálfu sér ekki fjölmennur hópur viðbragðsaðila inni í Grindavík en það hefur gengið ágætlega.“

Úlfar segir stöðuna ekki ólíka í Grindavík og í Svartsengi þegar það komi að mengun. Þar sé einnig mengun sem hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að landa í Grindavíkurhöfn í dag eins og til stóð. Hún hafi verið mikil yfir Svartsengi í morgun.

Hefur staðan eitthvað verið endurmetin, núna þegar liðið hefur á daginn?

„Nei, nú þurfum við í raun og veru bara að sjá hvernig þessi dagur klárast og við komum til með að endurmeta bara stöðuna eftir fund viðbragðsaðila klukkan níu í fyrramálið. Þetta er svona fyrirkomulag með svipuðum hætti og í fyrri gosum.“

Þá hafi starfsmenn fyrirtækja fengið að fara inn í Grindavík vegna bráðaverkefna í dag. Úlfar segist eiga von á því að aðgangstakmarkanir verði endurskoðaðar á morgun en það verði að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×