Innlent

Hafa tapað mjög háum fjár­hæðum vegna vasaþjófa á Ís­landi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vasaþjófarnir herja á helstu ferðamannastaði landsins.
Vasaþjófarnir herja á helstu ferðamannastaði landsins. Vísir/Vilhelm

Ferðamálastofa varar við vasaþjófum sem hafa orðið til þess að ferðamenn hafi tapað háum fjárhæðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni sem segist hafa fengið ábendingar um vasaþjófa sem herji á helstu áfangastaði Íslands.

„Fréttir hafa borist af ferðamönnum sem hafa tapað mjög háum fjármunum vegna þessa á undanförnum vikum.“

Ferðamálastofa hvetur ferðaþjónustuaðila að brýna fyrir viðskiptavinum sínum að reyna að varast þjófana og ganga þannig frá verðmætum að ekki sé auðvelt að nálgast þau.

Í tilkynningunni eru eftirfarandi ráð gefin til fólks vegna vasaþjófanna.

  • Standið alltaf vörð um verðmæti ykkar.
  • Verið meðvituð um umhverfi ykkar á öllum tímum, sérstaklega ef einhver nálgast ykkur og reynir að ná athygli ykkar.
  • Lokið og krækið (læsið) öllum töskum og veskjum til að gera það erfiðara fyrir vasaþjófa að komast í þær.
  • Staðsetjið handtöskur fyrir framan ykkur þegar að þið eruð á stað þar sem að margir koma saman.
  • Geymið peninga á öruggum stað (jafnvel innanklæða) svo að ekki sé hægt að læðast í þá. Ekki geyma allan peninginn á einum og sama staðnum.
  • Aldrei geyma verðmæti í ytri vösum fatnaðar.
  • Eigið afrit af helstu persónugögnum.
  • Tilkynnið til lögreglu eða landvarða ef þið takið eftir tilraunum til vasaþjófnaðar.
  • Tilkynnið allan stuld til lögreglu þó svo að það taki tíma frá ferðalaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×