Skoðun

Börnin á Gaza

Þorvaldur Víðisson skrifar

Við finnum okkur vanmáttug

Við finnum okkur vanmáttug gagnvart þeim hrylling sem á sér stað á Gaza. Við styðjum þá einstaklinga sem fara á staðinn og leita uppi fólkið sem hefur fengið heimild til að tilheyra íslensku samfélagi, á grundvelli fjölskyldusameininga. Við gleðjumst og fögnum yfir hugrekki þeirra og dugnaði, þökkum þeim frumkvæðið og að þau skuli framkvæma það sem við mörg hugsum.

Við tökum undir mótmæli allra þeirra sem mótmæla stríði og ofbeldi. Við tökum einnig undir hvatningu til stjórnvalda, og jafnvel mótmæli vegna aðgerðarleysis. Við leggjum fjármagn til hjálparsamtaka sem stuðla að friði. Við viljum gera meira, við viljum leggja okkar að mörkum. En þrátt fyrir þetta er það tilfinning vanmáttar sem er ríkjandi í hjörtum okkar.

Það er vont að finna sig vanmáttugan gagnvart þeim hrylling sem þarna á sér stað. Þeir sem líða helst í stríði eru þeir sem síst skyldi, börnin og aðrir í viðkvæmri stöðu, hvort sem það er í Úkraínu, á Gaza eða hvar sem ófriður ríkir.

Raddir barnanna á Gaza í Bústaðakirkju

Nauðsynlegt er að hlusta á reynslu þeirra sem líða, reynslu barnanna, að samfélagið heyri raddir barnanna.

Raddir barnanna á Gaza verða á dagskránni í Bústaðakirkju á sunnudaginn klukkan 13. UNICEF hefur safnað slíkum reynslusögum og verður völdum reynslusögum miðlað, þar sem krakkar úr starfi kirkjunnar munu ljá þeim rödd sína.

Bænin stundum eina leiðin

Sá texti sem lesinn er í kirkjum landsins þennan sunnudaginn fjallar m.a. um bænina.

Þar miðlar Jesús þeim djúpa sannleika að stundum er bænin eini farvegurinn sem við höfum gagnvart raunum mannlífsins. Ég tel að við ættum að taka undir þá hvatningu Jesú og biðja fyrir börnunum á Gaza, að Guð verndi börnin á Gaza og bjargi þeim úr þessum háska og vitanlega að Guð verndi öll börn í heiminum. Biðja fyrir friði í heiminum, í Úkraínu, á Gaza og hvarvetna sem ófriður ríkir.

Til viðbótar við allt hitt sem við gerum og leggjum að mörkum til góðs fyrir mann og heim, líf og framtíð, skulum við einnig biðja. Biðja algóðan Guð um frið, því með samstilltu bænaátaki geta kraftaverkin gerst.

Höfundur er prestur í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×