Innlent

Sam­skipti við ráðu­neytið um fram­tíð skóla­starfs mikil von­brigði

Lovísa Arnardóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Formaður fjölskylduráðs Norðurþings, Helena Eydís Ingólfsdóttir, sagði á fundinum að samskipti við mennta- og barnamálaráðuneytið um málið hefðu valdið henni miklum vonbrigðum.
Formaður fjölskylduráðs Norðurþings, Helena Eydís Ingólfsdóttir, sagði á fundinum að samskipti við mennta- og barnamálaráðuneytið um málið hefðu valdið henni miklum vonbrigðum.

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í dag tillögu fjölskylduráðs sveitarfélagsins um að auglýsa eftir þremur stöðugildum fagmenntaðs starfsfólks til að sinna annars vegar skólastjórn og hins vegar kennslu. Náist ekki að fylla þessar stöður verði grunnskólanum á Raufarhöfn lokað.

Verði grunnskólanum lokað er gert ráð fyrir því að nemendum verði ekið í Öxarfjarðarskóli Við Kópasker. Um 55 kílómetrar eru á milli skólanna sem tekur um klukkustund að aka. Nemendur skólans voru í haust sjö talsins en hefur fjölgað um fjóra og eru þeir nú ellefu.

Málið var rætt á sveitarstjórnarfundi í dag. Þar byrjaði Helena Eydís Ingólfsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi og formaður fjölskylduráðs, á því að rekja málið ítarlega allt til ársins 2018. Hún sagði að frá þeim tíma hafi verið vandi við mönnun við skólann. 

Unnið hafi verið með ráðuneytinu við það að reyna að halda lífi í skólahaldi í sveitarfélaginu með því að sækja um þróunarskólaleyfi til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Niðurstaða ráðuneytisins hafi verið sú að það hafi ekki verið samkvæmt lögum að fela einkafyrirtæki að sjá um skólahald í bænum og að nauðsynlegt væri að kennari með leyfisbréf væri á staðnum. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu var skólahaldi haldið áfram með sama sniði út síðasta skólaár. Á sama tíma var skipaður starfshópur um framtíð skólastarfsins og ráðuneytið beðið um leiðbeiningar um það hvernig væri hægt að halda úti skólastarfi áfram á Raufarhöfn.

Skiluðu þremur tillögum

Starfshópurinn skilaði svo þremur tillögum. Í þeirri fyrstu var lagt til að skólahaldi yrði haldið áfram á Raufarhöfn, í annarri að skólinn yrði sameinaður Öxarfjarðarskóla og sú þriðja að skólahald yrði lagt af og nemendur færu allir í Öxarfjarðarskóla.

Auglýstar verða þrjár stöður við skólann. Náist ekki að ráða í þær verður ekki hægt að uppfylla lagalegar skyldur um mönnun fagfólks í grunnskóla.

„Fjölskylduráð hefur að mínu mati, allt frá árinu 2018 tekist vel upp varðandi það að leggja áherslur nemendur og á skyldur Norðurþings gagnvart þeim. Varðandi nám, gæði náms og félagslegan þroska. Svo fátt eitt sé nefnt,“ sagði Helena Eydís á fundinum í dag.

Samskipti við ráðuneytið vonbrigði

Hún sagði að þótt svo að byggðasjónarmið skipti einnig máli séu þau ekki í forgrunni í þessu máli. Ekki frekar en kostnaður við skólahaldið. Ráðið hafi fjallað um málið út frá þjónustu og skyldu við nemendur.

Hún sagði það sama gilda um vinnu starfshópsins og þakkaði þeim fyrir.

„Að þessu sögðu, verð ég að segja, að í því ferli sem hefur staðið frá því í júní þegar umsókn um þróunarskóla var send ráðuneytinu hafa samskipti við mennta- og barnamálaráðuneytið valdið mér gríðarlega miklum vonbrigðum,“ sagði Helena Eydís og að sama skapi væru það mikil vonbrigði að þótt svo að ákvæði um þróunarskóla hefðu verið til frá 2008 í lögum væri enn ekki til skýrar leiðbeiningar um meðferð umsókna.

Það væri enginn í ráðuneytinu sem tæki formlega við umsóknunum eða vissi hvernig ætti að meðhöndla þær. Þar af leiðandi sé afgreiðslutíminn „með öllu óásættanlegur“.

Leiðin sem ekið verður með nemendur ef skólahald verður alveg lagt af í Raufarhöfn. Google Maps

Helena Eydís sagði ráðið sömuleiðis í tvígang hafa leitað ráðlegginga hjá ráðuneytinu um fyrirkomulag kennslu og stjórnunar og að þeim fyrirspurnum hafi einnig verið svarað seint.

„Á þremur mánuðum hefur ráðuneytið ekki brugðist við ósk okkar um leiðbeiningar um skólahald og framkvæmd þess á Raufarhöfn, og ráðuneytið er fullmeðvitað um stöðuna,“ sagði Helena Eydís og að ítrekað hefði þurft að ganga á eftir svörum ráðuneytisins.

„Fyrirfram hefði ég talið að það væri mikilvægt að afgreiða leyfisumsóknir, eins og okkar, eins fljótt og frekast er unnt þegar þær snúa að einhverju jafnmikilvægu og að veita börnum lögbundna þjónustu,“ sagði hún og að umsóknum væri svarað eins fljótt og hægt væri.

Engin önnur leið fær

Hún sagði það vonbrigði að í byggðarlögum, eins og Raufarhöfn, sem hafi farið í gegnum verkefni eins og brothættar byggðir væru ekki einhver verkfæri í verkfærakistum stjórnvalda til að tryggja og aðstoða slík byggðarlög við að veita lögbundna þjónustu.

Hún sagði fjölskylduráð hafa ígrundað málið vel en að þeirra vinna hafi ekki getað fært þau að neinni annarri niðurstöðu en þeirri sem var lögð til. Tillaga fjölskylduráðs hljóðar svo:

Fjölskylduráð leggur til við sveitarstjórn að farin verði leið 1A úr skýrslu starfshóps um endurskoðun fyrirkomulags grunnskólaþjónustu nemenda á Raufarhöfn.

Leiðin felur í sér að auglýst verði eftir þrjú stöðugildi fagmenntaðs starfsfólks til að sinna skólastjórn og kennslu.

Ráðið leggur jafnframt til að náist ekki að ráða í auglýstar stöður og uppfylla lagalegar skyldur um mönnun fagfólks í grunnskóla verði farin leið 3, Grunnskóla Raufarhafnar lokað og nemendum ekið í Lund frá og með hausti 2024.

Ráðið felur fræðslufulltrúa að auglýsa eftir starfsfólki samkvæmt framangreindu.

„Lengra verður að mínu mati ekki komist í því lagaumhverfi sem við búum við í dag. Og á meðan ekki fást leyfi til að þróa skólastarf í fámennri byggð, með þeim hætti sem við reyndum og er þó í samræmi við hvort tveggja byggðaáætlun og aðgerðaáætlun hennar, né þegar borist hafa leiðbeiningar frá mennt-a og barnamálaráðurneytinu.“

Áki Hauksson áheyrnarfulltrúi M lista tók þá til máls og lagði fram bókun um að M-listinn harmaði þá stöðu sem upp væri komin í sveitarfélaginu. Hann sagðist skilja afstöðu fjölskylduráðs. Í bókun hans kom fram að hann teldi ekki fullreynt að halda úti skólastarfi.

Tillaga fjölskylduráðs var samþykkt samhljóða á fundinum. Hægt er að horfa á umræður á fundinum hér að neðan. Umræðan er frá 34:16 til 54:22.

Vilji allra að halda úti skólastarfi

Blaðamaður Vísis náði tali af Katrínu Sigurjónsdóttur, sveitarstjóra Norðurþings, sem var ekki eins harðorð í garð ráðuneytisins og formaður fjölskylduráðs. Hún segir auglýsingu eftir starfsfólki komna í loftið og bindur vonir við að það svari einhver kallinu.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings,segri brösulega hafa gengið að halda uppi skólastarfi á Raufarhöfn undanfarin ár.Vísir/Tryggvi Páll

Hvernig blasir þetta mál við þér?

„Það voru gerðar lokatilraunir í fyrrasumar, eins og kemur fram í erindi Helenu, að sækja um þróunarleyfi til menntamálaráðuneytisins um að fá að reka skólann að hluta til með skólastjórn í aðkeyptri þjónustu. Það kom ekki svar fyrr en skólastarf var hafið að við fengjum ekki þetta þróunarleyfi,“ sagði Katrín í samtali við Vísi.

„Þá var settur af stað vinnuhópur til að finna leiðir að við gætum haldið þessu úti með löglegum hætti. Síðan var ákveðið í dag að reyna til þrautar að auglýsa eftir réttindafólki og það er vonandi að það skili árangri. Það eru auglýsing í loftinu núna og við bindum vonir við að við getum ráðið réttindafólk að skólanum,“ sagði hún.

Hvernig er upplifun þín af þessum samskiptum við ráðuneytið?

„Við sækjum um í júní um þetta þróunarleyfi og við fengum menntamálaráðuneytið síðan til okkar í heimsókn í ágúst, rétt í þann mund sem skólinn var að hefjast. Það var verið að svara ýmsu sem kom upp á þeim fundi. Síðan fengum svarið ekki endanlega fyrr en í nóvember. Auðvitað er það seint en ég efast ekki um að það hafi allir verið að reyna að finna einhverjar leiðir til að mæta þessu,“ sagði Katrín.

„Það var svo lokaniðurstaða ráðuneytisins að þetta væri ekki gerlegt eins og verið var að gera þetta. Auðvitað er það vilji allra að halda úti skólastarfi á Raufarhöfn. Að reyna það til þrautar,“ sagði hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×