Fótbolti

Sigrar hjá Ís­lendingum í sænska bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Fannar á góðri stund með liðsfélögum sínum.
Andri Fannar á góðri stund með liðsfélögum sínum. X-síða Elfsborg

Tvö Íslendingalið voru í eldlínunni í sænska bikarnum í dag en keppnin fór af stað um helgina. Sigrar unnust hjá báðum liðum með mörkum á lokamínútunum.

Andri Fannar Baldursson var í byrjunarliði Elfsborg sem mætti GAIS á heimavelli. Elfsborg rétt missti af sænska meistaratitlinum í fyrra eftir tap gegn Malmö FF í úrslitaleik í lokaumferðinni. GAIS eru hins vegar nýliðar í sænsku deildinni.

Andri Fannar er ekki eini Íslendingurinn á mála hjá Elfsborg því Eggert Aron Guðmundsson gekk til liðs við félagið í vetur. Hann fór hins vegar í aðgerð á dögunum og verður frá næstu mánuðina.

Leikurinn í dag leit lengi vel út fyrir að vera markalaus. Elfsborg misnotaði reyndar vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem dæmd var eftir að Andri Fannar var felldur í teignum. Andri Fannar fór líka illa með gott færi skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Elfsborg náði hins vegar inn tveimur mörkum á síðustu tíu mínútunum og tryggði sér 2-0 sigur.

Birnir Snær byrjaði hjá Halmstad

Í Halmstad tóku heimamenn á móti Helsingborg. Birnir Snær Ingason var í byrjunarliði Halmstad en Gísli Eyjólfsson hóf leikinn á bekknum. Báðir gengu þeir til liðs við Halmstad í vetur.

Mohammed Naeem kom Halmstad í forystu í fyrri hálfleik en gestirnir jöfnuðu fyrir hlé. Naeem kom heimaliðinu aftur í forystu en gestunum tókst að jafna á nýjan leik þrettán mínútum fyrir leikslok.

Sigurmark Halmstad kom hins vegar í uppbótartíma. Það skoraði Amir Al-Ammari og tryggði Halmstad 3-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×