Erlent

Bað LGBTQ+ sam­fé­lagið af­sökunar á ára­löngum of­sóknum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þáttastjórnandinn Wojciech Szeląg baðst afsökunar á framgöngu ríkismiðilsins TVP gagnvart hinsegin fólki.
Þáttastjórnandinn Wojciech Szeląg baðst afsökunar á framgöngu ríkismiðilsins TVP gagnvart hinsegin fólki.

Þáttastjórnandi hjá ríkismiðlinum TVP í Póllandi hefur beðist afsökunar á afstöðu og framkomu miðilsins í garð LGBTQ+ fólks síðustu ár. Ráðist var í umfangsmiklar breytingar á stjórn TVP þegar Donald Tusk varð forsætisráðherra í desember síðastliðnum.

Wojciech Szeląg, sem hóf störf hjá TVP í janúar, hóf þátt sinn á sunnudag með því að ávarpa áhorfendur. Horfði hann beint í myndavélina og sagðist þurfa að segja nokkur orð.

„Það hefur nú viðgengist í Póllandi í mörg ár að skammarlegum orðum hefur verið beint að einstaklingum vegna þess að þeir tóku sér það vald að ákveða sjálfir hverjir þeir eru og hverja þeir elska,“ sagði Szeląg. „LGBT+ samfélagið er ekki hugmyndafræði heldur fólk; nöfn, andlit, ættingjar og vinir.“

Szeląg snéri sér því næst að gestum þáttarins, sem báðir tilheyra hinsegin samfélaginu.

„Allt þetta fólk á inni afsökunarbeiðni. Þetta er stundin sem ég biðst afsökunar.“

Annar gestanna, aðgerðasinninn og kvikmyndagerðamaðurinn Bart Staszewski, sagði afsökunarbeiðnina til marks um að tak stjórnmálaflokksins Laga og réttlætis á ríkismiðlinum heyrði sögunni til.

„Í átta ár sýndu þeir hinsegin aðgerðasinna, og hinsegin samfélagið, sem ógn við pólsku þjóðina... nærðu fólkið á þessu hatri,“ sagði Staszewski. Hann sagðist í fyrstu hafa verið hræddur við að mæta í stúdíóið, þar sem byggingin væri táknræn fyrir þann áróður sem hinsegin fólk hefði búið við í mörg ár.

„Fyrir suma er þetta ekkert en fyrir mig er þetta mikilsvert. Eftir að hafa verið ósýnilegur í átta ár; verið einhverns konar „minni“ ríkisborgari. Þetta kom bæði mér og Maja í opna skjöldu. Við vorum snortin,“ sagði Staszewski og vísaði til hins gestarins, trans aktívistans Maja Heban.

Staszewski sagði afsökunarbeiðni Szeląg bæði nauðsynlega og táknræna; kaflaskil í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×