Erlent

Skipar hernum að tæma Rafa fyrir inn­rás

Samúel Karl Ólason og Telma Tómasson skrifa
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael. AP/Gil Cohen-Magen

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur skipað ísraelska hernum að gera áætlun um brottflutning allra íbúa frá Rafah. Það á að gera áður en gerð verður allsherjar innrás í borgina en þangað hafa fjölmargir íbúar Gasastrandarinnar flúið á undanförnum mánuðum.

Þetta sagði Netanjahú í yfirlýsingu í kjölfar gagnrýni frá alþjóðasamfélaginu um fyrirætlanir Ísraelshers um að ná fullum yfirráðum í Rafah, sem liggur við landamærin að Egyptalandi.

Í frétt frá fréttaveitunni AP segir að um ein og hálf milljón Palestínumanna hafi komið sér fyrir í borginni, mikið til flóttamenn frá öðrum svæðum á Gasa. Ísraelsmenn fullyrða að þar sé síðasti griðarstaður Hamas-samtakanna, sem Netanjahú hefur heitið að uppræta með öllum tiltækum ráðum.

Forsætisráðherrann segir umfangsmiklar hernaðaraðgerðir þarfar í Rafah, þar sem marga Hamas-liða megi finna. Undanfarna daga hafa Ísraelar gert loftárásir á borgina og féllu minnst 22 í þeim árásum.

Ofir Gendelman er einn talsmanna Netanjahú.

Ráðamenn í Bandaríkjunum segjast ekki hafa séð ummerki um að Ísraelar séu að skipuleggja innrás í Rafah. AP hefur eftir talsmanni utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að slíka aðgerð, án mikils undirbúnings, þar sem svo margir halda til, yrði líklega „hörmung“.

Þá hefur fréttaveitan eftir John Kirby, talsmanni þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, að Bandaríkjamenn myndu ekki styðja slíka árás.

Catherine Russel, yfirmaður UNICEF, segir síðustu sjúkrahús Gasastrandarinnar vera á í Rafah og þar séu sömuleiðis síðustu neyðarskýlin og virku vatnsleiðslurnar. Án þess myndi hungur aukast og sjúkdómum fjölga.

Ráðamenn í Egyptalandi segjast hafa miklar áhyggjur af mögulegri innrás í Rafah og óttast streymi fólks yfir landamærin. Þeir hafa sagt að árás á borgina gæti ógnað fjörutíu ára friðarsamkomulagi Egyptalands og Ísrael.


Tengdar fréttir

Ræddu nauð­syn þess að draga úr spennu

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú á leið til Kaíró til að funda með Abdel Fattah El-Sisi, forseta Egyptalands. Blinken átti fund með Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×