Erlent

Girkin dæmdur í fjögurra ára fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Igor Girkin í dómsal í Moskvu í dag.
Igor Girkin í dómsal í Moskvu í dag. AP/Alexander Zemlianichenko

Igor Girkin, fyrrverandi yfirmaður í Leyniþjónustu Rússlands (FSB) og fyrrverandi leiðtogi aðskilnaðarsinna í Dónetsk í Úkraínu, hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir öfgar. Hann var árið 2022 dæmdur í fjarveru í lífstíðarfangelsi fyrir aðkomu hans að því þegar MH17, flugvél Malasyia Airlines, var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu árið 2014.

Girkin, sem gekk á árum áður undir dulnefninu Strelkov var handtekinn í Moskvu í fyrra fyrir öfgar í tengslum við ítrekaða gagnrýni hans á Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og varnarmálaráðuneytið vegna innrásarinnar í Úkraínu. Hann er ekki á móti innrásinni heldur er hann þeirrar skoðunar að Rússar hafi ekki gengið nógu hart fram í Úkraínu.

Sjá einnig: Þrír sak­felldir fyrir að skjóta niður MH17

Er hann var dæmdur í Moskvu í morgun kom fram að hann eigi að afplána dóm sinn í fanganýlendu. Samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur Girkin einnig verið bannað að reka vefsíður í þrjú ár.

Verjendur Girkins segjast ætla að áfrýja dómnum.

Yfirvöld í Rússlandi hafa ítrekað notað lög um öfgastarfsemi og ný lög um að bannað sé að móðga rússneska herinn til að kveða niður mótmæli og stöðva rekstur sjálfstæðra fjölmiðla og alþjóðlegra samtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×