Fótbolti

Segist vera dóttir Peles og vill að hann verði grafinn upp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pele lést 29. desember 2022.
Pele lést 29. desember 2022. getty/Friedemann Vogel

Brasilísk kona sem segist vera dóttir fótboltagoðsagnarinnar Peles vill að lík hans verði grafið upp fyrir faðernispróf.

Pele lést undir lok árs 2022. Í erfðaskrá sinni kom fram að hann gæti átt fleiri börn en þau sjö sem hann átti opinberlega.

Hin sextuga Maria do Socorro Azevedo heldur því fram að hún sé dóttir Peles en hann og móðir hennar áttu í stuttu sambandi. Móðirin sagði Pele hins vegar aldrei frá því að hún væri ólétt.

Tvö barna Peles, Edinho Nascimento og Flavia Christina, fóru í DNA-próf eftir að hafa lesið erfðaskrána. 

Niðurstöðurnar úr því voru neikvæðar en samkvæmt lögmanni Mariu var þó möguleiki á blóðtengslum. Fyrir hönd Mariu hefur hann því óskað eftir að lík Peles verði grafið upp svo hægt sé að framkvæma faðernispróf.

Í sjónvarpsviðtali á sunnudaginn sagðist Maria ekki vera á höttunum eftir peningum en ef hún reynist vera dóttir Peles á hún heimtingu á hluta af arfi hans sem skiptist á milli eiginkonu hans, barna og barnabarna.

Lögmaður fjölskyldu Peles segir að hann mun berjast gegn því að lík hans verði grafið upp þar sem DNA-próf hafi þegar sýnt fram á að Maria sé ekki dóttir hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×