Fótbolti

Henderson flúði en Gerrard fram­lengdi samning sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard handsalar samninginn.
Steven Gerrard handsalar samninginn. Al-Ettifaq

Steven Gerrard hefur framlengt samning sinn við sádi-arabíska félagið Al-Ettifaq. Þetta kemur út á sama tíma og annar fyrrum fyrirliði Liverpool flúði sama félag.

Gerrard hefur framlengt samning sinn um tvö ár en hann tók við liðinu í júlí síðastliðnum.

Jordan Henderson kom líka í sumar en hann fékk sig lausan í vikunni og hefur samið við hollenska félagið Ajax.

Henderson kostaði félagið tólf milljónir punda þegar Al-Ettifaq keypti hann frá Liverpool og miðjumaðurinn skrifaði þá undir þriggja ára samning. Hann var hins vegar búinn að fá nóg eftir aðeins hálft ár.

Gerrard kann aftur á móti mun betur við sig og hefur skrifað undir samning til ársins 2027 eftir að hafa gert tveggja ára samning við komuna til Sádi Arabíu.

Það hjálpar eflaust að félagið var tilbúið að gera hann einn af launahæstu þjálfurum heims. Talið er að Gerrard fá um fimmtán milljónir punda í árslaun eða 2,6 milljarða íslenskra króna.

Gengi liðsins hefur þó ekki verið gott en Al-Ettifaq er í áttunda sæti sem er einu sæti neðar en liðið endaði á síðustu leiktíð.

Gerrard var búinn að reyna við ensku úrvalsdeildina en var rekinn frá Aston Villa í nóvember 2022 eftir aðeins þrettán sigra í 40 leikjum. Villa liðið hefur síðan blómstrað undir eftirmanni hans Unai Emery.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×