Handbolti

Svíar með fullt hús stiga eftir sigur gegn Slóveníu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lucas Pellas var markahæsti Svíinn í kvöld með 8 mörk
Lucas Pellas var markahæsti Svíinn í kvöld með 8 mörk Stuart Franklin/Getty Images

Svíþjóð vann 28-22 gegn Slóveníu í fyrsta leik milliriðilsins á Evrópumótinu í handbolta. 

Slóvenar byrjuðu vel en um leið og Svíar hristu milliriðilsstressið af sér sýndu þeir styrk sinn og fóru létt með leikinn. Fimm mörk Svía gegn aðeins einu Slóvensku á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og Svíar voru fjórum mörkum yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja. 

Svíar héldu svo uppteknum hætti í seinni hálfleik og hleyptu Slóvenum aldrei nálægt sér. Lucas Pellas og Sebastian Karlsson fóru þar fremstir í flokki en alls komust tíu Svíar á blað í kvöld. 

Markvörðurinn Andres Palicka sá svo um helming allra slóvenskra skota sem hann fékk á sig, 14 varin af 28 skotum. 

Báðar þjóðir tóku tvö stig með sér upp úr riðlakeppninni og Slóvenar þurfa því ekki að örvænta, þó frammistaða kvöldsins hafi verið slæm. 

Slóvenía og Svíþjóð eru í hinum milliriðli mótsins ásamt Noregi, Portúgal, Danmörku og Hollandi. Danmörk tók tvö stig með sér áfram, líkt og Slóvenía og Svíþjóð. Þeir unnu Hollendinga örugglega fyrr í kvöld og eru því jafnir Svíum að stigum í efsta sætinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×