Atvinnulíf

Geð­heilsa starfs­fólks: Vinnu­staðir að greiða fyrir marg­vís­lega sér­fræði­þjónustu fyrir starfs­fólk

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Kara Connect segir kynslóðamun áþreifanlegan í atvinnulífinu, ungt fólk geri meiri kröfur. Vinnustaðir bjóða nú upp á margvíslegan stuðning við starfsfólk með Velferðatorgi á Köru Connect; til dæmis sálfræðiþjónustu, markþjálfun, brjóstaráðgjöf, breytingaskeiðsráðgjöf, pararáðgjöf, fjármálaráðgjöf, lögfræðiþjónustu og fleira.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Kara Connect segir kynslóðamun áþreifanlegan í atvinnulífinu, ungt fólk geri meiri kröfur. Vinnustaðir bjóða nú upp á margvíslegan stuðning við starfsfólk með Velferðatorgi á Köru Connect; til dæmis sálfræðiþjónustu, markþjálfun, brjóstaráðgjöf, breytingaskeiðsráðgjöf, pararáðgjöf, fjármálaráðgjöf, lögfræðiþjónustu og fleira. Vísir/Vilhelm

„Það hefur orðið gríðarlegur munur á viðhorfi vinnustaða til mikilvægi góðrar andlegrar heilsu starfsfólks frá því við fórum af stað,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect, en fyrirtækið var stofnað árið 2015.

„Kynslóðamunurinn er áþreifanlegur, ungt fólk gerir aðrar kröfur en þeir sem eldri eru og það getur skipt sköpum hver forstjóri fyrirtækisins er, hversu mikil áhersla er lögð á vellíðan starfsfólks,“ segir Þorbjörg en rannsóknir sýna að ávinningur vinnustaða að því að starfsfólki líði sem best andlega er mikill og fjölbreyttur.

„Kannanir okkar sýna að um 30% af tíma stjórnenda fer í að sinna málefnum starfsfólks sem teljast persónuleg. Þá er vitað að andleg vanlíðan starfsfólks fjölgar veikindadögum, og nýlega birti Deloitte niðurstöður sem sýna að stuðningur vinnustaða við andlega heilsu starfsfólks skilar sér fimmfalt til baka peningalega.“

Í Atvinnulífinu í dag og á morgun fjöllum við um stuðning vinnustaða við andlega heilsu starfsfólks og með hvaða hætti fyrirtæki eru að móta og innleiða heilsustefnu þessum málum tengdum.

Vinnuveitandi greiðir þrjá til sex tíma

Sífellt fleiri vinnustaðir nýta sér hugbúnað Köru Connect til að bjóða upp á svokallað Velferðartorg fyrir starfsfólk sitt.

Á Velferðartorginu getur starfsfólk sótt sér þjónustu hjá sérfræðingum eins og sálfræðingum, næringarfræðingum, fjármálaráðgjöfum, markþjálfum og fleirum.

„Þetta er mismunandi, fer allt eftir því hversu langt eða mikið vinnustaðir vilja ganga í sinni þjónustu við starfsfólk. Oft breytist þetta líka. Það er til dæmis hægt að byrja á því að bjóða fólki upp á sálfræðiþjónustu og bæta síðar við fleiri sérfræðingum ef áhugi er fyrir því “ segir Þorbjörg.

Hún segir mun á milli þess hvað íslenskir vinnustaðir eru að bjóða upp á í samanburði við vinnustaði á Írlandi og í Bretlandi.

„Að meðaltali eru íslenskir vinnustaðir að greiða þrjá tíma á ári fyrir starfsfólk, en þessi fjöldi er að meðaltali sex tímar á ári miðað við þá samninga sem við erum með á Írlandi og í Bretlandi.“

Það sem Velferðartorg á Köru Connect þýðir fyrir starfsfólk er að fólk getur bókað sig sjálft hjá sérfræðingum sem tilteknir eru á torgi vinnustaðarins.

Til dæmis sálfræðingum.

Stuðningur vinnustaðarins felst í því að greiða ákveðinn fjölda tíma fyrir starfsfólk hjá þeim sérfræðingum sem samið er við, en engin leið er fyrir vinnustaðinn að sjá hvaða starfsfólk er að sækja sér hvaða þjónustu og svo framvegis.

Hér má sjá skjáskot af hluta af Velferðatorgi fyrirtækis sem er með samning við Köru Connect. Vinnuveitandi greiðir þrjá til sex tíma á ári fyrir starfsfólk, sem getur með tveimur smellum valið og bókað sér tíma hjá sérfræðingi, á því móðurmáli sem við á fyrir hvern og einn.

Þorbjörg segir þjónustuna í flestum tilfellum í boði þannig að fólk geti sótt sér tíma í gegnum fjarfundarbúnað, hitt til dæmis sálfræðing á netinu. En eins bókað tíma og hitt viðkomandi á stofu.

„Það er allur gangur á þessu en mikilvægast er að báðar leiðir séu í boði. Við sjáum að yngra fólk nýtir sér meira að hitta sérfræðinga á netinu en ég held ekki að netið muni alveg taka yfir heldur verði þjónusta sérfræðinga alltaf sótt bæði staðbundið sem og á netinu. Þetta verði blandað fyrirkomulag, þannig að hver og einn velji þá leið sem best hentar,“ segir Þorbjörg og bætir við:

Netið getur til dæmis hins vegar verið snilldarlausn með tilliti til tungumála. Ég nefni sem dæmi pólskan starfsmann búsettan á Íslandi. Hann getur í gegnum Köru Connect bókað sig í tíma hjá sálfræðingi í Póllandi sem við erum með samning við. 

Að geta sótt sér svona sérfræðiþjónustu á móðurmálinu er mjög mikilvægt.“

Þorbjörg nefnir líka sem dæmi, fyrirtæki sem er með starfstöðvar víðar en á Íslandi.

„Fyrirtæki eins og Controlant og Tixly eru fyrirtæki sem eru með starfsstöðvar á nokkrum stöðum í heiminum og starfsfólk sem talar mismunandi tungumál. Þessi fyrirtæki ná að tryggja fólkinu sínu aðgengi að sérfræðingum í sínu landi í gegnum Köru Connect.“

Starfsfólk kröfuharðari í dag

Að nota Köru Connect hugbúnaðinn er frekar auðvelt.

„Fólk getur bókað tíma með tveimur smellum og hjá okkar sérfræðingum er biðin oftast innan við 48 klukkustundir þannig að starfsmaður sem vill bóka sig hjá sérfræðingi er oftast að ná þeim tíma innan þeirrar viku sem fólk bókar tímann.“

Í umræðunni er oft talað um langan biðtíma hjá sumum sérfræðingum, til dæmis sálfræðingum. Hvernig má það vera að það sé ekki bið hjá sérfræðingum í samstarfi við Köru Connect?

„Við höfum unnið lengi með sérfræðingum þannig í raun erum við að hjálpa þeim að besta sinn tíma,“ svarar Þorbjörg og tekur dæmi:

„Segjum til dæmis að sálfræðingur sémeð opið fyrir bókun hjá sér á milli klukkan 10-12 á miðvikudegi. Þessi sálfræðingur er síðan mögulega á Velferðartorgum hjá nokkrum vinnuveitendum og nær þannig að besta tímann sinn.“

Þá segir Þorbjörg alvanalegt að fólk sé að bóka, afboða eða færa sig til með tíma hjá sérfræðingum.

„Sem aftur er hægt að nýta með því bjóða sama glugga til bókunar fyrir starfsfólk annara fyrirtækja. Sérfræðingar eru líka oft í þeirri stöðu að sjá ekki nema tvo til þrjá mánuði fram í tímann og þurfa því alltaf að vera að koma sér á framfæri. Að vera á nokkrum Velferðartorgum hjá Köru Connect getur létt á þessari vinnu.“

Greitt er samkvæmt gjaldskrá.

„Samkeppnisaðilar okkar erlendis eru að þrýsta verð á tímum sérfræðinga niður og víða er algengt að sambærilegir aðilar séu að greiða 30% af því sem tíminn í raun kostar. Þetta gerum við ekki, enda trúum við því einfaldlega að betri árangur og betri sérfræðingar fáistþegar greitt er samkvæmt gjaldskrá. Það einfaldlega tryggir starfsfólki betri þjónustu og hjálpar við bata.“

En hvers vegna eru vinnustaðir að bjóða upp á aðgengi sérfræðinga eins og næringarfræðinga eða fjármálaráðgjöf?

„Það má segja að þessi fjölbreytni hafi meðal annars fæðst vegna samstarfs okkar við sálfræðinga því það sem kom snemma í ljós í samtölum við þennan hóp, er að oft felist aðstoð við andlega heilsu starfsfólks í einhverju öðru en eingöngu samtalsmeðferðum sálfræðinga,“ segir Þorbjörg og bætir við:

„Við höfum líka lært það að í sínu starfi eru sálfræðingar oft að benda sínum skjólstæðingum á leiðir sem gætu hjálpað. Til dæmis að bæta mataræði, fá aðstoð við fjármál ef sú staða er kvíðavaldandi og svo framvegis.“

En er ekki nokkuð um að forsvarsmenn fyrirtækja líti á þessi mál sem eitthvað sem vinnustöðunum sem slíkum komi ekkert við. Hvað þá að vinnustaðir eigi að greiða fyrir svona þjónustu?

„Jú, það er alltaf eitthvað um það en þetta er þó viðhorf sem fer hverfandi og mín skoðun er sú að þeir vinnustaðir sem ekki munu sýna í verki að þeim sé annt um andlega heilsu starfsfólks séu einfaldlega vinnustaðir sem munu verða undir til framtíðar,“ segir Þorbjörg og bætir við:

„Yngri kynslóðir eru einfaldlega með allt aðrar kröfur en áður giltu. Vinnustaðir standa því frammi fyrir því að þurfa að svara spurningum í atvinnuviðtölum eins og: Hvað bjóðið þið mér upp á sem starfsmanni? Hvað eruð þið að gera í umhverfismálum? Heilsutengdum málum? Og svo framvegis. Þetta eru allt spurningar sem okkur sem eldri erum hefði ekki einu sinni dottið í hug að spyrja um.“

Þorbjörg segir Covid líka hafa breytt mjög miklu.

„Covid breytti mörgu þessu tengt. Fólk er einfaldlega ekki tilbúið að láta vinnuna ganga fyrir öllu, ungt fólk leggur mikla áherslu á jafnvægi einkalífs og vinnu og almenn vitundarvakning um mikilvægi andlegrar heilsu er mjög mikil,“ segir Þorbjörg og bætir við:

„Margt spilar inn í þetta. Fólk til dæmis er ekki lengur tilbúið til þess að sitja í umferð í tvær klukkustundir á dag til að komast til og frá vinnu, fólk vill vinna hjá fyrirtækjum sem leiða með starfi sínu ýmislegt til góðra verka fyrir samfélagið í heild sinni og svo framvegis. Hluti af því er að fólk viti að vinnustaðnum sé annt um að þeim líði vel.“

Um 30% tíma stjórnenda fer í persónuleg mannauðsmál en stjórnendur eru þó mishæfir í því að takast á við slík mál. Rannsóknir sýna að ávinningurinn af því að styðja við andlega heilsu starfsfólks skili sér fimmfalt til baka peningalega, veikindadögum fækkar og minni líkur eru á að fyrirtæki hellist úr lestinni.Vísir/Vilhelm

Lífið og vinnan ekki aðskilin

Þorbjörg segir að það að vinna á erlendum mörkuðum sé nokkuð frábrugðið hinum íslenska.

„Á skrifstofunni okkar í Dublin erum við að vinna með fyrirtækjum á Írlandi og í Bretlandi. Þar er meðaltími sölu og samningagerðar um eitt ár, sem er mun lengri tími en við þekkjum á Íslandi. Fjármögnun sem fyrirtækið tryggði sér í fyrra hefur hins vegar gert okkur kleift að þróa okkur sem teymi og verða vaxtarteymi. Þannig að núna erum við að vinna að sölumálum Köru Connect erlendis þannig að við séum í samskiptaferli í um eitt ár við fyrirtæki og stofnanir.“

Sem dæmi um innlenda aðila sem eru með velferðatrog hjá Köru Connect á Íslandi eru Orkuveita Reykjavíkur, KPMG, Controlant, Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn, en í Bretlandi, Írlandi og í Evrópu er fyrirtækið til dæmis að vinna með FuturEnergy, TalentHub og nú í febrúar Vodafone.

Þú talar um kynslóðamun en upplifir þú kynjamun þegar kemur að þessum málum? Hefur það til dæmis haft áhrif að þínu mati að konur eru langtum fleiri mannauðsstjórar í íslensku atvinnulífi í samanburði við karlmenn?

„Vissulega hefur það kannski haft einhver áhrif, en ég tel það þó hafa meiri áhrif að nú er nokkuð algengt að mannauðsstjórar séu núna hluti af framkvæmdastjórn. Að mínu mati er þetta mjög jákvæð þróun, því þetta þýðir einfaldlega að mál sem þessi hafa meira vægi innan vinnustaða en áður,“ segir Þorbjörg og endurtekur að almennt finnist henni það frekar vera kynslóðamunurinn sem sé að knýja fram breytingar.

„Sem er svosem ekkert skrýtið, því hver kynslóð hefur í raun þróast áfram með tilkomu nýrri tækni. Foreldrar minnar kynslóðar eru Baby boomer kynslóðin, fædd tímabilið 1946-1964. Ný tækni þeirrar kynslóðar voru til dæmis eldavélar, þvottavélar og uppþvottavélar sem léttu á heimilisverkum og gerðu fleiri konum kleift að sækja út á vinnumarkaðinn. X-kynslóðin, fædd 1965-1979, fær nasaþef af þeirri tækni sem Internetið hefur fært okkur en aldamótakynslóðin og Z kynslóðin, fæddar um 1980-1994 og 1995-2012, þekkja ekkert annað líf en lífið með internetinu.“

Tæknin hafi haft mörg jákvæð áhrif fyrir atvinnulíf og samfélög, en þó einnig aukið á vanlíðan.

„Þar eru símar og samfélagsmiðlar einfaldlega að valda því að unga fólkinu er að líða verr andlega. Að sama skapi erum við að sjá að til dæmis Z-kynslóðin er afskaplega vel lesin og upplýst, finnst ekkert nema sjálfsagt og eðlilegt að tala um líðan sína og hefur lært að koma tilfinningum sínum í orð. Allt þetta þrýstir á að vinnustaðir hugi vel að andlegri líðan starfsfólks, annars missa fyrirtækin einfaldlega fólk frá sér.“

Þorbjörg segir það líka af hinu góða, að stjórnendur og vinnustaðir séu almennt að átta sig á því að andleg líðan fólks er ekki aðskilin í vinnu og einkalífi.

„Ég nefni sem dæmi streitu. Hún er alls ekki alltaf vond og hún er ekki bara vinnutengd og getur skapast af ýmsu. Streita getur síðan truflað svefn, breytt mataræði fólks og fólk fer jafnvel að upplifa alls kyns líkamlega kvilla sem fjölga veikindadögum og svo framvegis. Allt þetta hefur áhrif á það hvernig okkur gengur í vinnunni.“

Réttlæting aðkomu vinnustaða að heilsu og velferð starfsfólks, kallar þó á að rýna líka í töluleg gögn.

„Til dæmis erum við að fylgjast vel með þróun veikindadaga þeirra fyrirtækja sem eru hjá okkur og sjáum að stuðningur við starfsfólk hefur þau áhrif að veikindadögum fækkar. Ég ætla ekki að segja að það sé eingöngu vegna Köru Connect því margt spilar án efa inn í. En að fækka veikindadögum er þó eitthvað sem er góður mælikvarði að horfa til,“ segir Þorbjörg og bætir við:

Síðan má líka nefna álag á stjórnendur eða hæfni þótt það sé erfitt að ná utan um slík atriði í mælingum. 

Staðreyndin er þó sú að stjórnendur eru misvel í stakk búnir til að taka samtöl um mannauðsmál eða málefni starfsfólks eða hafa af þeim svo miklar áhyggjur að þeir fá nánast magasár sjálfir. Velferðartorg hjá Köru Connect getur verið liður í að létta á þessu álagi.“

Algengast er að vinnustaðir vilji tryggja starfsfólki aðgengi að sálfræðingum, en þess að auki hafa Velferðartorg Köru Connect boðið upp á margvíslega og fjölbreytta sérfræðiþjónustu; pararáðgjafa, fjarþjálfara, lögfræðiþjónustu, breytingarskeiðsráðgjöf, fjárfestingarráðgjöf, markþjálfun, sjúkraþjálfun, brjóstaráðgjöf, núvitundarleiðslu og ótal margt fleira.

„En síðan fáum við stundum fyrirspurnir um eitthvað allt, allt annað. Til dæmis að fá Reiki-meistara. Og þá er bara gengið í að redda því.“


Tengdar fréttir

Mikilvægt að stjórnendur setji eftirlitsgleraugun á sig reglulega

„Það kemur mér á óvart hvað við gerum oft ráð fyrir að samskipti fólks á vinnustað eigi að ganga snurðulaus fyrir sig, svona eins og einhver sjálfvirk vél,“ segir Ragnhildur Bjarkadóttir sálfræðingur og einn eigenda Auðnast og bætir við:

Að­eins þremur af hverjum tíu starfs­mönnum hrósað síðustu daga

„Sem dæmi þá eru einungis þrír af hverjum tíu starfandi Íslendingum mjög sammála því að hafa fengið hrós eða viðurkenningu á síðustu sjö dögum,“ segir Auðunn Gunnar Eiríksson stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup meðal annars um niðurstöður nýrrar rannsóknar Gallup um hrós til starfsmanna á vinnustöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×