Fótbolti

Hareide: Þurfum að sjá hvað við getum gert betur taktískt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Åge Hareide er landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu.
Åge Hareide er landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Skjáskot

Åge Hareide landsliðsþjálfari Íslands var ánægður með sigur liðsins á Gvatemala í nótt. Hann sagði að með meiri nákvæmni hefði Ísland getað skorað fleiri mörk.

„Þetta er týpískur leikur í janúar, þetta er mjög snemma fyrir marga leikmenn. Mér fannst þeir leggja hart að sér og vinna vel sem lið. Þeir urðu auðvitað þreyttir því þetta er svona snemma á tímabilinu. Það er eitt af því sem þarf að hafa í huga þegar leikið er á þessum tíma árs,“ sagði Åge Hareide í viðtali sem birtist á Facebooksíðu Knattspyrnusambands Íslands eftir leikinn í nótt.

Ísland skoraði eina mark leiksins seint í síðari hálfleik og undir lokin settu leikmenn Gvatemala mikla pressu á íslensku vörnina og voru nálægt því að jafna.

„Ég er ánægður með það sem við lögðum í leikinn. Gvatemala setti pressu á okkur undir lokin til að jafna en við vörðumst vel. Ísak skoraði frábært mark og í heildina er gott að ná sigrinum. Sigur er sigur. Hann er mikilvægur fyrir okkur að taka með. Á margan hátt er þetta góð byrjun fyrir okkur,“ sagði Åge og bætti við að vissulega hefði Gvatemala getað skorað undir lokin.

„Algjörlega. Þeir opnuðu okkur aðeins of mikið og við litum út fyrir að vera óskipulagðir. Það er eðlilegt því við vorum búnir að gera margar skiptingar. Við vorum stöðugir í fyrri hálfleik og þá sköpuðu þeir ekki neitt. Með aðeins meiri nákvæmni af okkar hálfu hefðum við eflaust getað skorað meira.“

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í leiknum þegar hann kláraði frábærlega í teignum eftir að Jason Daði Svanþórsson hafði lagt boltann vel fyrir hann.

Klippa: Mark Ísak Snæs gegn Gvatemala

„Markið var frábært. Ísak gerði þetta frábærlega og Jason lagði boltann frábærlega fyrir hann. Það lögðu allir mikið í leikinn og nú þurfum við að skoða hann og sjá hvað við getum gert betur taktískt. Það er eðlilegt.“

Hann ýjaði að því að breytingar yrðu gerðar á liðinu fyrir leikinn gegn Hondúras aðfaranótt fimmtudags.

„Það þurfa sem flestir að spila. Þetta er snemma á tímabilinu og margir leikmenn hafa verið að glíma við meiðsli. Við þurfum að fara varlega því við viljum ekki senda þá meidda til baka til félaganna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×