Innlent

Leita manns sem talinn er hafa fallið í sprungu í Grinda­vík

Atli Ísleifsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Mannsins er leitað við sprunguna stóru sem liggur í gegnum Grindavík.
Mannsins er leitað við sprunguna stóru sem liggur í gegnum Grindavík. Vísir/einar

Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum leita nú manns sem talinn er að hafi fallið ofan í sprungu í Grindavík. Lögreglustjóri segir manninn hafa verið að störfum við að fylla í sprunguna. Enginn sjónarvottur hafi verið að atvikinu en grunur þó vaknað um slysið.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að útkallið hafa borist um klukkan 10:40 í morgun.

Jón Þór segist ekki vera með nákvæma staðsetningu, en að um sé að ræða stóru sprunguna sem myndast hefur í jarðhræringum síðustu vikna og liggur í gegnum bæinn.

Fréttastofa náði tali af Jóni Þór um klukkan 11:20 og sagði hann þá að leit standi enn yfir. Lögreglumenn, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarmenn séu að störfum á vettvangi.

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum staðfestir við fréttastofu að leit sé í gangi. Maðurinn hafi verið að störfum við að fylla upp í sprungu en Úlfar veit þó ekki til þess að nokkur hafi séð manninn falla ofan í sprunguna. Grunur hafi samt vaknað um slysið og lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir kallaðar út á ellefta tímanum. Úlfar segir ekki tímabært að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:53.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×