Innlent

„Í mínum huga hefur svona á­lit af­leiðingar“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir segir álitið ekki koma á óvart.
Hildur Sverrisdóttir segir álitið ekki koma á óvart. Vísir/Vilhelm

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis um hvalveiðibann matvælaráðherra ekki koma sér á óvart.

Umboðsmaður segir að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða í sumar hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum. Þá hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst meðalhófi.

„Við fyrstu sýn kemur þetta ekki á óvart. Við héldum því til haga alveg frá upphafi að við teldum að þarna hefði verið brotið á meðalhófi. Svo virðist sem það hafi hér með verið staðfest,“ segir Hildur í samtali við fréttastofu.

Þegar þessi frétt er skrifuð er örstutt síðan álitið birtist og þegar fréttastofa náði tali af Hildi hafði hún ekki lesið það, en kynnt sér niðurstöður þess.

Aðspurð um hvort niðurstaðan kalli á afsögn Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra tekur Hildur ekki afstöðu til þess. „Við þurfum að leggjast yfir álitið. Ég held að það muni hafa afleiðingar, en hverjar þær eru á eftir að koma í ljós,“ segir hún.

„Í mínum huga hefur svona álit afleiðingar,“ bætir Hildur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×