Fótbolti

Varamarkvörður Arbroath skoraði sann­kallað draumamark

Siggeir Ævarsson skrifar
Adams lætur vaða á markið
Adams lætur vaða á markið Twitter@AboutScotlandd

Sá fáheyrði atburður atburður átti sér stað í skosku B-deildinni í kvöld að varamarkvörður skoraði mark og það var vægast sagt af dýrari gerðinni.

Sökum meiðslavandræða var lið Arbroath aðeins með 15 menn á skýrslu í kvöld en liðið er í bullandi fallbaráttu í deildinni og þurfti nauðsynlega á stigum að halda.

Staðan í hálfleik var 1-0 heimamönnum í Raith Rovers í vil og til þess að hrista aðeins upp í hlutunum gerði Arbroath þrefalda skiptingu í hálfleik og þar með voru allir útileikmenn á bekknum komnir inn á. 

Á 58. mínútu meiddist svo Aaron Steele og þá voru góð ráð dýr, enda aðeins markvörðurinn Ali Adams á bekknum. Hann kom inn á í stöðu framherja og á 76. mínútu skoraði hann þetta ótrúlega mark sem myndi gera flesta framherja græna af öfund.

Adams, sem er 32 ára hefur ekki náð að festa sig í sessi sem markvörður og hefur flakkað á milli ýmissa liða í neðri deildum Skotlands. Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi einfaldlega valið að einbeita sér að rangri stöðu á vellinum en árið 2020 skoraði hann mark úr aukaspyrnu af eigin vallarhelmingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×