Íslenski boltinn

Þriðja Dísin frá Val í at­vinnu­mennsku

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir hefur verið afar sigursæl með liði Vals síðustu ár.
Ásdís Karen Halldórsdóttir hefur verið afar sigursæl með liði Vals síðustu ár. vísir/Diego

Ásdís Karen Halldórsdóttir fagnaði 24 ára afmæli sínu með því að skrifa undir samning til tveggja ára við norska knattspyrnufélagið Lilleström. Þar með fjölgar enn í hópi íslenskra leikmanna sem farið hafa úr Bestu deildinni í atvinnumennsku eftir síðustu leiktíð.

Ásdís er þriðja „Dísin“ sem yfirgefur Íslandsmeistara Vals í vetur en áður höfðu Þórdís Elva Ágústsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir farið til Växjö í Svíþjóð. Á móti fékk félagið til sín miðjumanninn Katie Cousins sem síðast lék með Þrótti.

Ásdís hefur raðað inn titlum með Val síðustu ár og gengur nú til liðs við eitt af bestu liðum Noregs. Hún var fjórða stoðsendingahæst í Bestu deildinni í ár, með átta stoðsendingar, og skoraði einnig sex mörk. 

Lilleström endaði í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og varð síðast Noregsmeistari árið 2019.

„Ég er í skýjunum með að hafa skrifað undir hjá Lilleström. Þetta er toppfélag með góða sögu. Ég hlakka til að hitta liðið og byrja þetta,“ segir Ásdís Karen á heimasíðu Lilleström.

„Ég hef spilað með Val síðustu fjögur ár, og vann deildina þrjú síðustu ár í röð. Hérna hef ég öðlast góða reynslu af því að vinna, auk reynslu af því að spila í Meistaradeild Evrópu. Ég ætla að stuðla að því að Lilleström berjist á toppnum og komist í Meistaradeildina,“ segir Ásdís Karen.

Ásdís Karen er uppalin hjá KR en fór til Vals fyrir tímabilið 2018. Hún hefur einnig spilað tvö ár í bandaríska háskólaboltanum. Hún á að baki 32 leiki fyrir íslensk landslið, þar af einn A-landsleik sem var vináttulandsleikur gegn Eistlandi í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×