Innlent

Svaka­legur tími í að snúa ferða­mönnum við

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íris Marelsdóttir björgunarsveitarkona fyrir miðju ásamt krökkunum sínum tveimur, björgunarsveitarfólkinu Ingólfi Árnasyni og afmælisbarninuRögnu Sif Árnadóttir.
Íris Marelsdóttir björgunarsveitarkona fyrir miðju ásamt krökkunum sínum tveimur, björgunarsveitarfólkinu Ingólfi Árnasyni og afmælisbarninuRögnu Sif Árnadóttir. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitarkona sem sinnti gosgæslu í kvöld segir svakalegan tíma hafa farið í að spjalla við ferðamenn og snúa þeim við sem hyggjast ætla að gosi. Þá sé töluverður fjöldi sem stöðvi bíl sinn á Reykjanesbrautinni.

„Það hefur verið dásamlegt veður í kvöld og dásamlegt fólk en það er ofboðslega mikið af ferðamönnum. Þetta dregur gríðarlega að,“ segir Íris Marelsdóttir , björgunarsveitarkona úr Kópavogi í samtali við Vísi.

Hún var ekki sú eina úr fjölskyldunni sem stóð vaktina en tvö barna hennar stóðu vaktina líka, þau Ingólfur Árnason og Ragna Sif Árnadóttir. Ragna á afmæli í dag en ákvað frekar að standa gosvaktina en að halda upp á afmælið sitt.

Íris segir ekkert annað hafa komið til greina. Hún segir verkefnið þó fyrirferðamikið, gosið sé gríðarlega vinsælt.

„Það fer svakalegur tími í að spjalla við ferðamenn. Segja þeim að þetta sé of langt og að það megi ekki stöðva bílinn úti í kanti. En þeir eru allir ofboðslega kurteisir og þakklátir. Þetta bara verkefni,“ segir Íris.

Sumir ferðamannanna stoppi við Vogaafleggjara, þaðan sem séu rúmir átta kílómetrar að gosstöðvum í hrauni og snjó. Aðrir stoppi á Reykjanesbrautinni þaðan sem þeir ætla að setja drónann út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×