Innlent

Guð­laug Rakel nýr for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Suður­nesja

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, nýr forstjóri HSS, og Markús Ingólfur Eiríksson, fráfarandi forstjóri.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, nýr forstjóri HSS, og Markús Ingólfur Eiríksson, fráfarandi forstjóri.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir hefur verið skipuð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) til næstu fimm ára af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Fráfarandi forstjóri stendur nú í málarekstri gegn ráðherra. 

Greint er frá skipuninni á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að hæfisnefnd hafi metið Guðlaugu vera mjög vel hæfa til að gegna embættinu. 

Guðlaug er hjúkrunarfræðingur að mennt og með meistarapróf í viðskiptafræðum frá HÍ. Þá hefur hún lokið ýmsum námskeiðum í lýðheilsuvísindum innan HÍ í tengslum við doktorsverkefni sem hún vann að um faraldsfræði notenda bráðamóttaka.

„Í umsögn hæfnisnefndar er m.a. bent á mikla og fjölþætta reynslu Guðlaugar Rakelar af rekstri og stjórnun með umfangsmiklum mannaforráðum þar sem m.a. hefur reynt á fjármálaumsýslu og áætlanagerð. Hún hafi í störfum sínum öðlast víðtæka þekkingu á opinberri stjórnsýslu og fjármálum hins opinbera,“ segir í tilkynningunni. 

Markús Ingólfur Eiríksson, fráfarandi forstjóri HSS, stendur nú í málarekstri gegn ráðherra og ríkinu en hann vill meina að hann hafi orðið fyrir ranglæti og óeðlilegum þrýstingi í tengslum við það að staða hans sem forstjóri var auglýst. 

Ekki er búið að dæma í málinu en nánar má lesa um málið í fréttinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×