Erlent

Freista þess að ná saman um texta á­lyktunar um vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðræður standa yfir um texta ályktunarinnar.
Viðræður standa yfir um texta ályktunarinnar. epa/Abir Sultan

Atkvæðagreiðslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um ályktun um ákall eftir vopnahlé á Gasa var frestað í gær til að freista þess að forðast að Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu.

Ályktunin var samin af fulltrúum nokkurra Arabaríkja, sem sögðu það jákvæða þróun að stjórnvöld vestanhafs virtust vilja komast að samkomulagi um orðalag sem Bandaríkin gætu stutt, í stað þess að grípa strax til þess að beita neitunarvaldi sínu.

Bandaríkin hafa tvisvar beitt neitunarvaldinu við atkvæðagreiðslu um vopnahlé, 18. október og 9. desember.

Samkvæmt erlendum miðlum virðast viðræðurnar um orðlag tillögunnar hafa snúist um að Bandaríkin gætu ekki stutt ákall eftir því að látið yrði af átökum en mögulega að hlé yrði gert á átökum.

Aukinnar sundrungar er sagt gæta innan stjórnkerfisins í Bandaríkjunum varðandi árásir Ísraelsmanna á Gasa, þar sem sumir embættismenn segja aðra ekki gera sér fulla grein fyrir því hversu fullir hræsni Bandaríkjamenn þykja í stuðningi sínum við Ísrael á sama tíma og þeir fordæma voðaverk Rússa í Úkraínu.

Sendifulltrúar Bandaríkjanna eru sagðir hafa hvatt stjórnvöld í Ísrael til að leita annarra leiða til að ná markmiðum sínum í baráttunni við Hamas, með takmörkuðum árangri. Stuðningur Bandaríkjamanna við ályktun um vopnahlé myndi senda enn skýrari skilaboð um að þolinmæði þeirra séu takmörk sett.

Þrýstingur hefur aukist á Ísrael um að láta af árásum sínum en allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti á dögunum að kalla eftir lokum átaka með 153 atkvæðum gegn tíu. Fulltrúar 23 ríkja sátu hjá.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×