Innlent

Á­kveðinn léttir að það sé farið að gjósa

Margrét Björk Jónsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Gosið kom Hjálmari nokkuð á óvart. Hann hafi þó grunað í hvað stefndi þegar skjálftarnir byrjuðu.
Gosið kom Hjálmari nokkuð á óvart. Hann hafi þó grunað í hvað stefndi þegar skjálftarnir byrjuðu. Vísir

Hjálmar Hallgrímsson hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir ágætt að byrjað sé að gjósa, það sé ákveðinn léttir. Svæðið sé vel vaktað og „allir á tánum.“

Lillý Valgerður, fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við Hjálmar fyrir stundu, þar sem þau voru stödd um þrjá kílómetra frá gosinu.

„Miðað við síðustu upplýsingar erum við að miða við að sprungan sé um fjórir kílómetrar að lengd. Nú erum við að vakta þetta og fylgjast með hraunflæði og sjá hvernig þetta hegðar sér. Það eru bara allir á tánum.“

Hraun virðist renna til norðurs í átt að Reykjanesbraut. Fjölmargir eru að störfum við varnargarðana.

„Menn eru að vinna við garðana og eru tilbúnir ef eitthvað fer að breytast. Þetta er staðan núna, hún er bara þokkaleg, en eins og við vitum úr fyrri gosum getur það tekið breytingum. Við erum að búa okkur undir það,“ segir Hjálmar.

Kom þetta þér á óvart, það hefur verið rólegt yfir þar til í kvöld?

„Já, þetta kom mér pínulítið á óvart. En engu að síður var undanfari, það voru skjálftarnir, það hefur verið í öllum gosunum. Það er enginn rólegur þegar þeir finna þá.“

Þá finni hann fyrir ákveðnum létti að það sé byrjað að gjósa miðað við fyrstu sviðsmyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×