Erlent

Palestínu­­­menn ber­háttaðir og hand­járnaðir af Ísraels­her

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ísraelskir hermenn afklæddu tugi palestínskra karlmanna í norðurhluta Gasa í dag. Mennirnir voru handjárnaðir fyrir aftan bak, bundið var fyrir augu þeirra og þeir látnir krjúpa niður á hnén í sandinn.
Ísraelskir hermenn afklæddu tugi palestínskra karlmanna í norðurhluta Gasa í dag. Mennirnir voru handjárnaðir fyrir aftan bak, bundið var fyrir augu þeirra og þeir látnir krjúpa niður á hnén í sandinn. AP

Ísraelsher smalaði saman tugum palestínskra karlmanna í norðurhluta Gasa í dag. Mennirnir voru afklæddir, handjárnaðir og bundið var fyrir augu þeirra áður en þeir voru látnir krjúpa á jörðinni.

Í yfirlýsingu frá ísraelskum hermálayfirvöldum segir að mennirnir hafi fundist á svæði þar sem bardagar við Hamas-liða hafi staðið yfir. Til stæði að yfirheyra mennina í leit hersins að Hamas-liðum. Aðstandendur manna úr hópnum hafna tengslum við samtökin.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna segja Ísraelsher hafa handtekið mennina í skóla sem búið var að breyta í skýli. Í hópnum voru einnig drengir undir átján ára aldri og voru þeir yngstu ekki nema fimmtán ára gamlir.

Fordæmalaus ákvörðun vegna fordæmalausra aðstæðna

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur rætt stöðuna á Gasa í dag eftir að Antonio Guterres, aðalritari SÞ, virkjaði 99. grein stofnsáttmála þeirra í fyrradag. Þegar hann ávarpaði ráðið í dag sagðist hann hafa gert það sökum allsherjarhruns mannúðaraðstoðar á svæðinu.

„Skilyrði fyrir virkri mannúðaraðstoð eru ekki lengur fyrir hendi. Samkvæmt Matvælaáætlun SÞ er alvarleg hætta á hungursneyð,“ sagði Guterres við ráðið í dag.

„Þær aðstæður sem ég lýsti eru fordæmalausar og því tók ég þá fordæmalausu ákvörðun að virkja ákvæði 99. greinar sem hvetur aðila Öryggisráðsins til að þrýsta á um að afstýra mannlegum hörmungum og biðja um að vopnahléi af mannúðaraðstæðum verði lýst yfir,“ sagði hann við Öryggisráðið.

Látlausar árásir Ísraelshers hafa haldið áfram og algjör skortur er á nauðsynjum. Suðurhluti Gasa er yfirfullur eftir að Ísraelsher gerði íbúum norðurhlutans að yfirgefa heimili sín og fara suður. Fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um málið í kvöldfréttum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×