Handbolti

„Þetta eyði­leggur hand­boltann“

Sindri Sverrisson skrifar
Króatía vann Kína með 26 marka mun í heldur óspennandi leik á HM í gær.
Króatía vann Kína með 26 marka mun í heldur óspennandi leik á HM í gær. EPA-EFE/Bjorn Larsson Rosvall

Sérfræðingur TV 2 í Noregi segir að allt of margir leikir á HM kvenna í handbolta séu mjög ójafnir. Það skemmi fyrir íþróttinni sem vöru fyrir sjónvarpsáhorfendur.

Liðunum á HM kvenna var fjölgað úr 24 í 32 lið fyrir tveimur árum og í ár eru einnig 32 lið, þar á meðal Ísland í fyrsta sinn í tólf ár.

Bent Svele, sérfræðingur TV 2, bendir á að með fleiri liðum komi fleiri ójafnir leikir en á laugardag var heildarmarkamunurinn í átta leikjum til að mynda 103 mörk, eða tæplega 13 mörk í leik. Níu marka tap Íslands gegn sjálfum ólympíumeisturum Frakklands var því vel undir meðaltali en stærsti munurinn var í 45-22 sigri Þýskalands gegn Íran, eða 23 mörk.

Í gær var heildarmunurinn 123 mörk í átta leikjum, þar sem til að mynda Króatía vann 39-13 sigur gegn Kína.

„Þetta er alveg vonlaust. Við sáum þetta 2021 og þetta er ekkert skárra núna,“ sagði Svele í gær.

„Ég sé að þeir eru að reyna að fegra þetta með fjölgun liða en það eru engin lið að verða betri. Þetta segir sig sjálft. Mér finnst menn allt of rómantískir í nálgun sinni varðandi útbreiðslu íþróttarinnar,“ sagði Svele og bætti við:

„Þetta eyðileggur handboltann sem vöru, fyrir almenning og sjónvarpsáhorfendur.“

Danski sérfræðingurinn Bent Nyegaard tekur í sama streng á vef TV 2 í Danmörku.

„Þetta hefur bara áhrif til eyðileggingar. Ég held að það fylgi því engin sérstök ánægja að vinna leik 44-25. Ég held að engum finnist eitthvað spennandi að vinna með 10-20-30 marka mun,“ sagði Nyegaard.

„Ég skil að menn vilji breiða út handboltann og tryggja að hann sé áfram ólympíugrein og svo framvegis. En heimsmeistaramót á að vera það erfiðasta sem til er. Og það er það ekki. Það er Evrópumótið,“ sagði Nyegaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×