Erlent

Fram­lengt um sólar­hring á síðustu stundu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelsmenn sem sleppt var úr haldi Hamas í gærkvöldi koma að Sheba-sjúkrahúsinu í Ramat Gan í Ísrael.
Ísraelsmenn sem sleppt var úr haldi Hamas í gærkvöldi koma að Sheba-sjúkrahúsinu í Ramat Gan í Ísrael. AP/Leo Correa

Ísraelsher greindi frá því í morgun að framhald yrði á hléi á átökum á Gasa vegna viðleitni sáttasemjara í málinu til að halda áfram að vinna að lausn gísla í haldi Hamas.

Þá sagði að framhaldið væri háð því að skilmálar upphaflega samkomulagsins væru virtir.

Hið upphaflega fjögurra daga hlé var fyrst framlengt um tvo daga en átti að renna úr gildi í morgun. 

Utanríkisráðherra Katar, sem hefur haft milligöngu um viðræðurnar, sagði í yfirlýsingu í gærkvöldi eða morgun að aðilar hefðu komist að samkomulagi um að framlengja hléið um að minnsta kosti einn dag.

Frá því að hléið komst fyrst á hafa Hamas-samtökin sleppt 102 gíslum, þar af 70 ísraelskum, og Ísraelsmenn sleppt 210 Palestínumönnum úr fangelsum í landinu. Stjórnvöld í Ísrael sögðu í gær að 160 væru enn í haldi Hamas á Gasa.

Vopnaði armur Hamas á Gasa sendi út skilaboð til bardagamanna sinna nokkrum klukkustundum áður en hléið átti að taka enda um að vera reiðubúnir ef ekki kæmi til framlengingar. 

Þá ítrekaði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, síðast í gær að Ísraelsher myndi halda áfram aðgerðum sínum að hléinu loknu en yfirlýst markmið stjórnvalda er að útrýma Hamas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×