Erlent

Síðustu fangaskipti vopnahlésins að ganga í gegn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ísraelskir gíslar voru fluttir yfir egypsku landamærin í morgun eftir að þeir voru látnir lausir.
Ísraelskir gíslar voru fluttir yfir egypsku landamærin í morgun eftir að þeir voru látnir lausir. AP

Hamas hefur látið sextán gísla lausa í skiptum fyrir þrjátíu Palestínska fanga í að öllum líkindum síðustu fangaskiptum vopnahlésins sem nú gengur yfir á Gasaströndinni. 

Af þeim sextán gíslum sem voru frelsaðir úr haldi Hamas í kvöld eru tíu Ísraelar, konur og börn á aldrinum 13 til 57 ára. Þá hafa fjórir tælenskir ríkisborgarar og tvær rússnesk-ísraelskar konur verið látin laus úr haldi Hamas í kvöld. Samkvæmt AP verða þrjátíu Palestínskir fangar látnir lausir seinna í kvöld. 

Samningaviðræður milli Ísrael og Palestínu virðast vera að harðna í ljósi þess að stór hluti kvennanna og barnanna sem Hamas hafði tekið sem gísl eru nú frjáls. Viðræðurnar leystust upp í dag þegar Hamas tilkynnti að fjölskylda ísraelskra gísla hefði látið lífið í loftárásum Ísraelshers á Gasaströndina í morgun. Tíu mánaða barn sé þar á meðal.

Þrátt fyrir vopnahlé á Gasaströndinni hefur Ísraelsher ekki lagt vopnin niður að fullu. Tveir Palestínskir drengir voru drepnir þegar Ísraelsher réðist inn í bæinn Jenin á Vesturbakkanum í dag, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum Palestínu. Náist ekki frekari samningar lýkur vopnahléinu í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×