Erlent

Stríðinu muni ekki ljúka þótt gíslarnir komi heim

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Benjamín Netanjahú er forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú er forsætisráðherra Ísraels. Sean Gallup/Getty

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir stríðið milli Ísraelsmanna og Hamas munu halda áfram, þrátt fyrir að gíslunum sem teknir voru í síðasta mánuði verði sleppt. Ísrael muni halda áfram að berjast þar til „öllum markmiðum hefur verið náð“.

Þetta kom fram í myndbandsávarpi sem Netanjahú tók upp og sendi út áður en hann hélt á fund með ríkisstjórn sinni til að ræða mögulegt vopnahlé gegn lausn gísla sem hafa verið í haldi Hamas-samtakanna síðan 7. október. 

Þar sagði forsætisráðherrann það „þvætting“ að yfirstandandi stríði myndi ljúka um leið og gíslunum hefði verið sleppt. Þó sagði hann lausn þeirra vera forgangsatriði.

„Stríð skiptast upp í tímabil og það gerir lausn gíslanna líka. Við munum ekki hætta fyrr en fullnaðarsigur er unninn, fyrr en við náum öllum heim. Það er heilög skylda okkar allra,“ sagði Netanjahú.

Hann tók þó fram að annað markmið Ísraels væri að eyða Hamas fyrir fullt og allt. 

„Og að það verði ekkert á Gasa sem kemur til með að ógna Ísrael aftur.“

Þakkaði Biden

Þá sagði Netanjahú að samningaviðræður um vopnahlé gegn lausn gísla yrðu erfiðar. Engu að síður væri rétt að ganga til þeirra.

„Árangur okkar í þessu stríði mun ekki tapast ef við leyfum ísraelska hernum að undirbúa sig undir komandi átök,“ sagði hann, og vísaði þar til mögulegs vopnahlés.

Eins þakkaði hann Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir hans framlag í viðræðum um vopnahlé. Með hans hjálp hefði skýrari rammi verið settur um viðræðurnar.

„Þannig að fleiri gíslar séu undir gegn vægara gjaldi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×