Fótbolti

Tók Ís­land skref aftur á bak? | „Þá vonandi tökum við tvö fram á við"

Aron Guðmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson leiðir íslenska landsliðið inn á José Alvalade leikvanginn í Lissabon í kvöld í leik gegn heimamönnum frá Portúgal.
Jóhann Berg Guðmundsson leiðir íslenska landsliðið inn á José Alvalade leikvanginn í Lissabon í kvöld í leik gegn heimamönnum frá Portúgal. Vísir

Jóhann Berg Guð­munds­son, fyrir­liði ís­lenska lands­liðsins í fót­bolta segist vona að liðið taki tvö skref fram á við gegn Portúgal eftir svekkjandi frammi­stöðu og þungt tap gegn Slóvakíu, í undan­keppni EM á dögunum, sem túlkað var sem skref aftur á bak fyrir liðið. Það sé undir öllum leik­mönnum liðsins komið að sýna að þeir séu betri en það sem þeir sýndu í Slóvakíu.

Aron Guðmundsson skrifar frá Lissabon

Nú þegar að nokkrir dagar eru liðnir frá tapinu gegn Slóvakíu sem gerði endan­lega út um mögu­leika Ís­lands á því að tryggja sér upp úr riðlinum leggur Jóhann Berg sitt mat á leikinn:

„Auð­vitað mjög svekkjandi að frammi­staðan hjá okkur var ekki betri en hún var. Sér­stak­lega eftir að við komumst einu marki yfir því maður hefði viljað byggja ofan á það. Við gerðum það ekki en svona er þetta. Þetta er bara raun­veru­leikinn. Auð­vitað vorum við svekktir eftir leik og daginn eftir. En núna er það bara næsti leikur, ein­beiting okkar fer á hann.“

Klippa: Jóhann Berg: Undir öllum komið sýna að þeir séu betri en sýnt var í síðasta leik

Það væri alltaf til mikils að ætlast að ís­lenska lands­liðið myndi næla í úr­slit gegn þessu ógnar­sterka portúgalska lands­liði en hvernig við­brögð vill Jóhann Berg sjá frá liðinu innan vallar frá tapinu gegn Slóvakíu?

„Ég vil bara sjá betri varnar­leik. Allt liðið þarf að verjast gríðar­lega vel, við vitum það. Portúgal er með frá­bært lið. Þetta verður erfitt en við þurfum að sýna að við getum varist vel og sótt líka. Við þurfum að hafa sjálfs­traust á boltanum, það vantaði að­eins á móti Slóvakíu. Vonandi getum við bara sýnt það hversu góðir í fót­bolta við erum og verðum erfiðir að eiga við. Svo sjáum við hvert það tekur okkur.“

Eftir tapið gegn Slóvakíu mátti greina mikla ó­á­nægju með spila­mennsku liðsins í leiknum og var til að mynda talað um að liðið væri að taka skref aftur á bak. Hvað segir þú við því?

„Ef það var aftur á bak þá vonandi tökum við tvö fram á við. Það er auð­vitað mark­miðið hjá okkur. Auð­vitað vitum við að þetta var ekki nógu gott. Öll leið í heiminum eiga slæma leiki. Við áttum það á móti Slóvakíu. Það er bara undir okkur komið að sýna að við erum betra lið en við sýndum þá.“

Ís­lenska lands­liðið hefur áður átt jafna leiki og góðar frammi­stöður gegn Portúgal. Nú síðast í um­ræddri undan­keppni heima á Ís­landi í leik sem tapaðist 1-0 þar sem að Cristiano Ron­aldo skoraði sigur­markið undir lok leiks.

Eru svo­leiðis frammi­stöður að gefa ykkur eitt­hvað fyrir komandi leik?

„Já al­gjör­lega. Við kíkjum á klippur úr þeim leik, erum búnir að því, og sáum hvað við gerðum vel þar. Það var ansi margt sem við gerðum mjög vel í þeim leik. Eins og þú segir þá var það mark á loka­mínútum leiksins sem tryggði þeim sigurinn. Þá er bara að líta á það já­kvæða sem við getum tekið út úr þeim leik og vonandi getum við sýnt það aftur á móti þeim.“

Þegar að leik­menn vilja sanna sig. Sanna að þeir séu betri en þeir sýndu síðast. Er þá ekki bara best að gera það á svona stóru sviði eins og hér í Lissabon?

„Jú al­gjör­lega. Ef ég tala fyrir mig þá er ekkert skemmti­legra en að spila á svona völlum fyrir framan pakkaðan leik­vang á móti frá­bærum leik­mönnum. Það er bara undir okkur öllum komið að sýna að við séum betri en við vorum í síðasta leik.“

Leikur Portúgal og Íslands í undankeppni EM 2024 verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkan 19:10. Leikar hefjast svo korter í átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×