Erlent

Að­dáandi Taylor Swift lést á tón­leikum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mikill harmleikur á tónleikum Taylor Swift í Brasilíu í gærnótt.
Mikill harmleikur á tónleikum Taylor Swift í Brasilíu í gærnótt.

23 ára aðdáandi Taylor Swift lést á tónleikum poppstjörnunnar í Ríó de Janeiró í Brasilíu í gærnótt.

Ana Clara Benevides var flutt á sjúkrahús eftir að hafa fengið aðsvif í mikilli hitabylgju sem ríður yfir þar í landi um þessar mundir. Dánarorsökin er sögð hafa verið hjartaáfall.

Hin unga Benevides var frá Sonora-borg í Brasilíu og stundaði nám í sálfræði. Talsmaður slökkviliðs Ríó de Janeiro hefur sagt að minnst þúsund manns hafi þurft á aðhlynningu að halda sökum aðsvifs á tónleikunum vegna hins mikla hita sem var.

Samkvæmt Folha de S. Paulo fór hitinn upp í sextíu gráður á Nilton Santos-leikvanginum þar sem tónleikarnir fóru fram. Skipuleggjendur tónleikanna hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að leyfa tónleikagestum ekki að koma með vatnsflöskur inn á leikvanginn.

Taylor Swift tjáði sig um harmleikinn á Instagram-síðu sinni.

Taylor vottar fjölskyldu og vinum hinnar látnu samúð sína á miðlinum Instagram.Instagram

„Ég trúi ekki að ég sé að skrifa þessi orð en það er með sorg í hjarta sem ég segi að við misstum aðdáanda fyrir tónleikana mína. Ég kem ekki í orð hve sorgmædd ég er yfir þessu. Ég veit voða lítið um málið annað en að hún var svo ótrúlega falleg og allt of ung,“ segir Taylor.

Hún segir jafnframt að hún geti ekki tjáð sig um málið á sviðinu vegna þess hvað harmur hennar er mikill. Í færslunni vottar Swift fjölskyldu og vinum hinnar látnu samúð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×