Erlent

Niinistö segir aukinn fjölda hælis­leit­enda hefndaraðgerð Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hælitsleitendum frá Rússlandi komið fyrir í bifreiðum til flutnings á móttökumiðstöð í Finnlandi.
Hælitsleitendum frá Rússlandi komið fyrir í bifreiðum til flutnings á móttökumiðstöð í Finnlandi. AP/Lehtikuva/Vesa Moilanen

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hefur heitið því að grípa til afdráttarlausra aðgerða vegna aukins fjölda hælisleitenda sem kemur til landsins frá Rússlandi. Segir hann um að ræða hefndaraðgerðir Rússa vegna samstarfs Finna og Bandaríkjamanna.

Venjulega er ríkisborgurum ríkja utan Evrópusambandsins snúið við á landamærum Finnlands en Niinistö sagði í gær að hann teldi að Rússar væru farnir að beina hælisleitendum að landamærastöðvum í Finnlandi til að hefna fyrir fyrirætlun Finna um að undirrita samkomulag í varnarmálum við Bandaríkin.

Landamærin Rússlands og Finnlands eru 1.335 kílómetra löng og spennan í samskiptum ríkjanna hefur aukist til muna eftir að Finnar sóttu um og fengu aðild að Atlantshafsbandalaginu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Öryggisyfirvöld í Finnlandi hafa meðal annars varað við auknum tilraunum til netnjósna.

Á mánudag komu 39 að landamærstöð í suð-austurhluta Finnlands og sóttu um hæli. Á þriðjudag voru hælisleitendur 55 og 74 í gær. Niinistö telur víst að um sé að ræða aðgerð af hálfu Rússa og að gera þurfi ráðstafanir til að mæta fjölguninni.

Finnska þingið samþykkti lög í fyrra sem heimila útlendingayfirvöldum að hætta að taka á móti hælisumsóknum ef talið er að um sé að ræða „fjöldaviðburð“ skipulagðan af öðru ríki.

Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, segir ásakanir Niinistö byggja á sandi og þá hefur Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sagt þau harma þá ákvörðun Finna að hverfa frá góðu tvíhliða samstarfi.

Umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×