Erlent

Spítalinn raf­magns­laus og án matar og vatns

Lovísa Arnardóttir skrifar
Spítalinn er eina byggingin sem hefur verið með rafmagn og á myndinni má sjá hann upplýstan og umhverfið myrkt.
Spítalinn er eina byggingin sem hefur verið með rafmagn og á myndinni má sjá hann upplýstan og umhverfið myrkt. Vísir/EPA

Al-Shifa spítalinn á Gasa er nú án rafmagns, matar og vatns. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segir að Ísrael verði að hætta að sprengja börn í loft upp. 

Í viðtali við BBC sagði Macron hann að ekkert réttlæti sprengjuárásir þeirra og að vopnahlé myndi gagnast Ísrael. Hann sagðist enn fremur vonast til þess að leiðtogar annarra vestrænna landa kalli eftir vopnahlé líkt og hann. Hann sagði ekkert annað en fyrst mannúðarhlé og svo vopnahlé geta verndað þá íbúa sem ekkert hafa að gera með hryðjuverk.

Hann viðurkenndi í viðtalinu að Ísrael hefði rétt til að verja sig en hvatti þau til að láta af sprengjuárásum sínum á Gasa. Hann fordæmdi á sama tíma hryðjuverkaárás Hamas í Ísrael. Frakkar hafa, eins og Bretland, Bandaríkin og fleiri vestrænar þjóðir, skilgreint Hamas sem hryðjuverkasamtök.

Macron sagði í viðtalinu það ekki sitt hlutverk að dæma um það hvort að alþjóðleg lög hafi verið brotin síðustu vikur.

Forseti Frakklands hefur hvatt Ísraela til þess að hætta að sprengja börn. Vísir/EPA

Greint er frá því í frétt BBC um viðtalið að forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, hafi verið fljótur að bregðast við athugasemdum forsetans og sagt að fordæma ætti Hamas, ekki Ísrael.

Ástandið á Gasa er sagt hræðilegt. Samtökin Læknar án landamæra vöruðu við hrikalegu ástandi á al-Shifa á sama tíma og loftárásir halda áfram. Samtökin segja að þau hafi ekki getað náð í neina lækna á þeirra vegum í spítalanum og að þau hafi miklar áhyggjur af sjúklingum. 

Á vef BBC er fjallað um talskilaboð frá einum lækni sem bárust fréttamanni þeirra í morgun. Þar kemur fram að spítalinn sé án rafmagns og að bráðamóttaka spítalans hafi orðið fyrir sprengjuárás.

Hann segir engan komast inn og engan komast út. Þá segir hann ekkert rafmagn, engan mat eða vatn á spítalanum. Tveir sjúklingar sem voru í öndunarvélum eru látnir í kjölfarið. Annar þeirra á barnsaldri. Leiðtogi Hamas sagði jafnframt í tilkynningu fyrr í morgun að ekkert eldsneyti væri á spítalanum fyrir rafmagn og að eitt ungbarn hefði látið lífið í nótt. Barnið hafði verið í hitakassa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×