Erlent

Blaða­menn á Gasa grunaðir um að hafa vitað af á­rásunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bæði AP og CNN hafa hætt samstarfi við manninn sem tók þessa mynd en svo virðist sem mynd hafi komið í leitirnar af honum með einum leiðtoga Hamas.
Bæði AP og CNN hafa hætt samstarfi við manninn sem tók þessa mynd en svo virðist sem mynd hafi komið í leitirnar af honum með einum leiðtoga Hamas. AP/Hassan Eslaiah

Samskiptaráðherra Ísrael hefur sakað blaðamenn á Gasa sem vinna í verktakavinnu fyrir erlenda miðla um að hafa haft vitneskju um árásir Hamas-liða 7. október síðastliðinn, áður en þeir létu til skarar skríða.

Shlomo Karhi segir um að ræða blaðamenn sem hafa starfað fyrir Reuters, Associated Press, New York Times og CNN. Miðlarnir hafa neitað því að hafa haft slíka vitneskju og segja „órökstuddar ásakanir“ stofna blaðamönnum í hættu.

Karhi hefur bent á, máli sínu til stuðnings, að svo virðist sem ljósmyndarar hafi verið viðstaddir þegar árásirnar fóru fram og segir að með því að mynda það sem gerðist hafi þeir í raun orðið þátttakendur í atburðarásinni.

Benny Gantz, sem situr í herráði Ísrael, segir að ef það reynist rétt að blaðaljósmyndarar hafi vitað af árásunum áður en þær áttu sér stað ætti að fara með þá eins og hryðjuverkamenn.

„Blaðamenn sem reynsta hafa haft vitneskju um blóðbaðið og kusu engu að síður að standa aðgerðalausir hjá á meðan börnum var slátrað eru engu öðruvísi en hryðjuverkamenn og ættu að vera meðhöndlaðir sem slíkir,“ sagði Gantz, fyrrverandi varnarmálaráðherra, á Twitter.

Danny Danon, þingmaður Likud, sagði að umræddir blaðamenn yrðu settir á lista yfir réttdræpa einstaklinga en miðlar í Ísrael segja sérstaka sveit hafa verið stofnaða til að hafa uppi á og drepa ákveðna einstaklinga innan Hamas sem komu að árásunum á byggðirnar í Ísrael.

Fyrrnefndir miðlar hafa neitað því að samningar hafi verið gerðir fyrirfram um myndir frá árásunum en bæði AP og CNN segjast hafa slitið samstarfi sínu við blaðamanninn Hassan Eslaiah, sem hefur sést á myndum með Hamas-leiðtoganum Yahya Sinwar.

New York Times hefur varið samstarf sitt við Yousef Massoud, sem var ekki að störfum fyrir blaðið 7. október en hefur tekið myndir fyrir það síðan þá. Reuters hefur neitað að hafa vitað af árásinni og að hafa átt blaðamenn meðal Hamas-liða daginn sem þær áttu sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×