Handbolti

Ný gulls­kyn­slóð Fær­eyinga á fjölum Laugar­dals­hallarinnar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn 21 árs gamli Elias Ellefsen a Skipagotu er stærsta stjarna færeyska landsliðsins en hann spilar með Kiel í Þýskalandi.
Hinn 21 árs gamli Elias Ellefsen a Skipagotu er stærsta stjarna færeyska landsliðsins en hann spilar með Kiel í Þýskalandi. Getty/Frank Molter

Ísland mætir Færeyjum í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni í kvöld en bæði lið eru að undirbúa sig fyrir EM í handbolta í Þýskalandi í janúar.

Íslenska landsliðið er þar að fara á sitt þrettánda Evrópumót í röð en þetta verður aftur á móti í fyrsta sinn sem færeyska landsliðið kemst á stórmót. Það má því segja að í kvöld sé tækifæri til að sjá nýja gullskynslóð Færeyinga spila hér á landi.

Ísland vann tvo stórsigra á Færeyjum þegar þjóðirnar mættust síðast á handboltavellinum í maí 2005. Fyrri leikurinn vannst með 21 marki en sá síðari með 9 mörkum. Færeyingar tefla fram allt öðru og betra liði í dag. Í aðalhlutverkum eru ungir leikmenn sem hafa verið að gera flotta hluti á stórmótum yngri landsliða síðustu ár.

Komnir í þýsk stórlið

Með frammistöðu sinni hafa þessir strákar einnig komist að hjá sterkum félagsliðum í Evrópu. Elias Ellefsen á Skipagøtu er þannig leikmaður THW Kiel í Þýskalandi og Hákun West av Teigum spilar með Füchse Berlin. Þá er Óli Mittún hjá Sävehof í Svíþjóð en þar spilaði Elias áður.

Einn leikmaður færeyska liðsins spilar á Íslandi en það er hornamaðurinn Allan Norðberg hjá Val. Nicholas Satchwell, fyrrum markvörður KA, og Vilhelm Poulsen, fyrrum leikmaður Fram eru líka báðir í hópnum.

Ungu stjörnuleikmenn liðsins eru leikstjórnandinn Elias á Skipagötu (21 árs), hægri hornamaðurinn Hákun av Teigum (21 árs) og vinstri skyttan Óli Mittún (18 ára) sem allir hafa slegið í gegn á stórmótum yngri landsliða.

Elias á Skipagötu var valinn besti leikmaður sænsku deildarinnar 2021-22 og var bæði markahæstur (55 mörk) og besti leikstjórnandi á HM 21 árs landsliða í sumar þar sem færeyska liðið endaði í sjöunda sæti. Hann er þegar kominn til þýska stórliðsins Kiel.

Markakóngur á bæði HM U19 og EM U18

Óli Mittún var kosinn besti leikmaðurinn á EM undir átján ára í fyrra og var bæði markahæstur á HM U19 í ár og EM U18 í fyrra. Hann skoraði 87 mörk á HM 2023 þar sem Færeyingar urðu í áttunda sæti og skoraði 80 mörk á EM 2022 þar sem færeyska liðið varð í níunda sæti.

Færeyingar komust á EM sem eitt af liðunum með bestan árangur í þriðja sæti í sínum riðli. Markahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni var Hákun av Teigum með 39 mörk í sex leikjum en Óli Mittún skoraði 26 mörk í sex leikjum og Elias á Skipagötu var með 25 mörk en lék aðeins fjóra af sex leikjum.

Spila í Berlín

Í úrslitakeppninni spilar liðið í riðli með Noregi, Slóveníu og Póllandi og verður hann spilaður í Mercedes-Benz Arena höllinni í Berlín. Fyrsti leikur liðsins er á móti Slóveníu 11. janúar sem verður sögulegur dagur fyrir færeyskar íþróttir.

Leikur Íslands og Færeyja hefst klukkan 19.30 í Laugardalshöllinni í kvöld.

  • Landsliðshópur Færeyja í Íslandsferðinni:
  • Markverðir:
  • Nicholas Satchwell, TIF Viking Bergen (NOR)
  • Pauli Jacobsen, HØJ (DEN)
  • Útileikmenn:
  • Ísak Vedelsbøl, H71
  • Teis Horn Rasmussen, Århus HC (DEN)
  • Helgi Hildarson Hoydal, Kristiansand (NOR)
  • Pætur Mikkjalsson, Hallby (SWE)
  • Leivur Mortensen, Frederiksberg IF (DEN)
  • Rói Berg Hansen, HØJ (DEN)
  • Hákun West av Teigum, Füchse Berlin (GER)
  • Allan Norðberg, Valur (ISL)
  • Peter Krogh, Århus HC (DEN)
  • Kjartan Johansen, Bækkelaget (NOR)
  • Vilhelm Poulsen, Lemvig-Thyborøn (DEN)
  • Elias Ellefsen á Skipagøtu, THW Kiel (GER)
  • Óli Mittún, IK Sävehof (SWE)
  • Rói Ellefsen á Skipagøtu, Hallby (SWE)
  • Jónas Gunnarson Djurhuus, Frederiksberg IF (DEN)
  • Pauli Mittún, Team Sydhavsøerne (DEN)
  • Bjarni í Selvindi, Kristiansand (NOR)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×