Innlent

Yfir­heyrslur yfir sjö­menningum fram­undan

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skotárásin var við Silfratjörn í Úlfarsárdal.
Skotárásin var við Silfratjörn í Úlfarsárdal. Vísir/Arnar

Yfirheyrslur yfir mönnunum sjö sem handteknir voru vegna skotárásar í fjölbýli á Silfratjörn í Úlfarsárdal munu fara fram í dag. Lögregla hyggst ekki veita frekari upplýsingar um mennina að svo stöddu.

Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi miðlægrar rannsóknardeildar, segir í samtali við Vísi að mennirnir sjö verði yfirheyrðir með morgninum. Hann segir að engar frekari handtökur hafi verið gerðar vegna málsins í nótt.

Lögregla telur sig hafa náð þeim sem tengjast árásinni. Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns, er ekki tímabært að veita upplýsingar um mennina sjö, hvorki um aldur þeirra, né stöðu sökum rannsóknarhagsmuna.

Þá vill lögregla ekki gefa upp hvort að mennirnir hafi áður komið við sögu lögreglu. Lögregla telur sig hafa hugmynd um hversu mörgum skotum var hleypt af í fyrri nótt en vill ekki gefa upp nákvæma tölu. 

Lögregla vill auk þess ekki gefa upp hvort að byssan sem notuð var til árásarinnar sé fundin. Einn særðist í skotárásinni. Hann særðist ekki alvarlega. Viðkomandi hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Þá hafnaði skot í rúðu íbúðar fjölskyldu sem tengist málinu ekki. Íbúar í fjölbýlishúsinu hafa sagst vera í áfalli eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×