Erlent

Salúsjní segir þrá­tefli á víg­línunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta Úkraínu. Yfirmaður herafla Rússlands segir átökin vera að festast í staðbundnum fasa.
Úkraínskur hermaður á víglínunni í austurhluta Úkraínu. Yfirmaður herafla Rússlands segir átökin vera að festast í staðbundnum fasa. Getty/Diego Herrera Carcedo

Valerí Salúsjní, yfirmaður herafla Úkraínu, segir ólíklegt að Úkraínumenn muni ná að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa og að stríðið í Úkraínu sé að færast í nýjan fasa staðbundins hernaðar og þreytistríðs (e: attritional warfare). Hann segir nýja tækni lykilinn að því að gera Úkraínumönnum kleift að sigra Rússa.

Herforinginn segir að þar sem stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi brugðist þurfi Úkraínumenn að frelsa hernumin svæði með valdi.

Í grein sem Salúsjní skrifaði og birt var á vef Economist segir herforinginn að Úkraínumenn hafi sýnt að þeir séu tilbúnir til að berjast fyrir frelsi sínu. Þeir hafi ekki einungis stöðvað innrás mun öflugri andstæðings heldur hafi þeir einnig frelsað stóra hluta landsins.

Salúsjní skrifaði bæði grein á vef Economist og lengri ritgerð sem birt var á sama vef. Hann fór einnig í viðtal þar sem hann ræddi stríðið.

Valerí Salúsjní, yfirmaður herafla Úkraínu er hér fyrir miðju.EPA/Oleg Petrasyuk

Segir stríðið minna á fyrri heimsstyrjöldina

Eftir fimm mánaða gagnsókn, harða og mannskæða bardaga, hafa Úkraínumenn ekki náð að sækja langt fram í suðurhluta Úkraínu. Mest hafa Úkraínumenn sótt sautján kílómetra fram. Rússar vörðu tíu mánuðum í að berjast um Bakhmut í austurhluta landsins og þegar þeir náðu bænum höfðu þeir lagt hann í rúst.

Salúsjní segir hernaðaraðstoð hafa dugað til að hjálpa Úkraínumönnum til að halda aftur af Rússum og halda stríðinu áfram en hún hafi ekki verið nægjanleg til að hjálpa Úkraínumönnum að vinna. Hann tekur þó fram að bakhjarlar Úkraínu séu ekki skuldbundnir til að hjálpa og segir Úkraínumenn þakkláta. Hann sé bara að fara með staðreyndir.

Salúsjní segir að þegar Úkraínumenn hafi ekki náð að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa í suðri hafi þeir einbeitt sér að því að reyna að fella eins marga rússneska hermenn og þeir gátu og reyna þannig að draga úr vilja Rússa til að heyja stríðið.

„Það voru mín mistök. Rússar hafa misst minnst 150 þúsund hermenn. Í hvaða landi sem er hefði slíkt mannfall bundið enda á stríðið,“ sagði Salúsjní. Hann sagði það þó ekki eiga við Rússland, þar sem mannslíf séu ódýr og með tilliti til þess að Vladimír Pútín, forseti, beri innrásina í Úkraínu við fyrri og seinni heimsstyrjaldirnar, þar sem Rússar misstu tugi milljóna manna.

Salúsjní segir stríðið minna sig á fyrri heimsstyrjöldina, þar sem tæknigeta beggja fylkinga er á því stigi að þeir hafi myndað þrátefli. Stórt stökk í tækni þurfi til að koma víglínunum á hreyfingu aftur. Hann segist hafa fengið þá hugljómun eftir að Úkraínumenn voru stöðvaði af jarðsprengjum og stórskotaliði í austri og í suðri.

„Fyrst hélt ég að eitthvað væri að yfirmönnum okkar, svo ég skipti nokkrum þeirra út,“ sagði Salúsjní. „Svo hélt ég að hermenn okkar væru ekki nægilega góðir, svo ég hreyfði nokkur stórfylki.“

Þegar þessar breytingar skiluðu ekki árangri skoðaði hann bók sem skrifuð var árið 1941 af P.S Smirnov, sovéskum herforingja, sem fjallaði um hvernig rjúfa ætti varnarlínur. Smirnov greindi orrustur í fyrri heimsstyrjöldinni í bók sinni.

Engu hægt að leyna

Salúsjní segist fljótt hafa áttað sig á því að aðstæður í Úkraínu væru svipaðar og í fyrri heimsstyrjöldinni. Þar sem hernaðartækni beggja fylkinga væri tiltölulega jöfn og það hefði leitt til þráteflis.

Þá sagðist hann hafa fest þessa kenningu sína í sessi eftir að hann heimsótti vígstöðvarnar við Avdívka, þar sem Rússar eru sagðir hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli á undanförnum vikum.

Herforinginn segist hafa séð 140 bryn- og skriðdreka loga á um fjögurra klukkustunda tímabili. Þeim hafi verið grandað með stórskotalið og segir Salúsjní að þeir sem flúðu hafi verið eltir uppi með sjálfsprengidrónum. Hann sagði úkraínska hermenn lenda í svipuðum aðstæðum þegar þeir reyni að sækja fram.

Í einföldu máli, þá sé erfitt á vígvelli nútímans að safna saman liði til árása, þar sem drónar séu notaðir til að finna umræddar hersveitir og langdræg vopn eins og drónar og stórskotalið notað til að rústa þeim úr fjarska.

„Hin einfalda staðreynd er sú að við sjáum allt sem óvinurinn gerir og við sjáum allt sem hann gerir.“

Fimm áhersluatriðið fyrir framhaldið

Í skrifum sínum nefni Salúsnjí fimm atriði sem leggja þurfi áherslu á í stríði Úkraínumanna gegn Rússum.

Salúsjní segir að staðbundinn hernaður og þreytistríð sé verulega áhættusamt fyrir Úkraínu og úkraínska hermenn. Til að sleppa úr þeirri gildru þurfi Úkraínumenn yfirráð í lofti, betri rafbúnað og aukna getu til að granda rússnesku stórskotalið, ný tæki og tól til að finna jarðsprengjur og til að ryðja leiðir í gegnum jarðsprengjusvæði og þá þurfi Úkraínumenn betri leiðir til að kveðja fleiri menn í herinn og þjálfa þá og undirbúa betur.

Herforinginn segir einnig að Úkraínumenn þurfi betri leiðir til að greina vígstöðvar, svo hægt sé að taka ákvarðanir fyrr með betri upplýsingum. Þá þurfi einnig að betrumbæta birgðanet Úkraínumanna, á sama tíma og þeir þurfa langdrægari eldflaugar til að brjóta upp birgðanet Rússa.

Úkraínskur hermaður sem særðist í átökum nærri Kúpíans í norðausturhluta Úkraínu.Getty/Vlada Liberova

Hann segir hefðbundin hergögn eins og sprengikúlur fyrir stórskotalið, eldflaugar og fallbyssuskot fyrir skriðdreka, enn vera gífurlega mikilvæg. Yfirráð í lofti séu einstaklega mikilvæg fyrir hreyfanlegan hernað á stórum skala og þar hafi Rússar einnig forskot.

Salúsjní segir að ekki megi vanmeta Rússa. Þeir hafi orðið fyrir miklu mannfalli og eytt miklu magni af skotvopnum. Rússar muni þó hafa yfirburði í vopnum, eldflaugum og skotfærum um einhvern tíma. Hergagnaframleiðsla í Rússlandi hafi verið aukin til muna, þrátt fyrir umfangsmiklar refsiaðgerðir.

Bakhjarlar Úkraínu á Vesturlöndum eru einnig að auka framleiðslu á skotfærum og öðrum hergögnum en það hefur víða gengið illa.

Umfangsmiklar loftvarnir beggja fylkinga koma í veg fyrir að hvorugur geti náð yfirráðum en þegar stríðið hófst áttu Úkraínumenn eingöngu um fjörutíu herþotur sem virkuðu, samkvæmt Salúsjní. Þeir hafa fengið einhverjar gamlar þotur frá tímum Sovétríkjanna frá bakhjörlum sínum en Rússar framleiða sífellt fleiri þotur og hafi því forskot.

Þegar kemur að rafbúnaði, snýst sá flokkur í einföldu máli um getu til að trufla dróna Rússa, bæta getu dróna Úkraínumanna, setja upp rafrænar tálbeitur og blinda hitamyndavélar Rússa, svo eitthvað sé nefnt.

Salúsjní segir mestallan búnað Úkraínumanna sem hannaður er til að trufla raftæki óvina þeirra, hafa verið þróaðan á tímum Sovétríkjanna. Rússar hafi gengið í gegnum mikla nútímavæðingu hvað rafbúnað varðar.

Hann segir Úkraínumenn þurfa aðstoð við að þróa nýjan rafbúnað til að trufla tæki Rússa og aðstoð við að auka eigin framleiðslu á drónum, hvort sem það eru drónar sem hannaðir eru til að varpa sprengjum á rússneska hermenn eða hraðskreiðir sjálfsprengidrónar.

Úkraínskir hermenn á ferðinni nærri Bakhmut í austurhluta Úkraínu.Getty/Diego Herrera Carcedo

Fyrst þegar Úkraínumenn fengu vestrænar fallbyssur fyrir stórskotalið vegnaði þeim vel í að finna og granda rússnesku stórskotalið. Eins og gerist gjarnan með ný vopn yfir tíma, hefur það forskot dregist saman.

Salúsjní segir Rússa betri í að trufla GPS-tengingar sjálfstýrðra sprengikúla og á sama tíma hafi þeir orðið betri í að finna úkraínskt stórskotalið og gera árásir á það. Það gera þeir meðal annars með Lancet sjálfsprengdrónum, sem notaðir eru samhliða eftirlitsdrónum.

Herforinginn segir að Úkraínumenn hafi að svo stöddu náð að halda í við stórskotalið Rússa með því að nota færri fallbyssur af meiri nákvæmni en Rússar en óvíst sé að það dugi til lengdar.

Til að bæta getu úkraínsks stórskotaliðs þurfi betri GPS-búnað á jörðu niðri, langdrægari sjálfsprengidróna og betri búnað til að finna rússneskt stórskotalið.

Ungur maður virðir fyrir sér gröf úkraínsks hermanns í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu.Getty/Stanislav Ivanov

Segir Rússland lénsveldi

Í stuttu máli sagt, þá virðist Salúsjní þeirrar skoðunar að Úkraínumenn muni þurfa að eiga í stríði við innrásarher Rússa um langt skeið og að Rússar hafi yfirhöndina. Að Pútín treysti á það að bakhjarlar Úkraínu muni þreytast á því að aðstoða ríkið og Úkraínumenn muni hafa engra kosta völ en að gera slæmt samkomulag við Rússa.

„Verum hreinskilin. Þetta er lénsveldi þar sem mannslíf eru ódýrasta auðlindin. Í okkar huga er fólkið það verðmætasta sem við eigum,“ sagði Salúsjní við Economist. Hann sagði úkraínska nægilega marga að svo stöddu en því lengur sem stríðið standi yfir verði erfitt að fylla upp í raðir Úkraínumanna.

Sjá einnig: Segja Rússa taka eigin hermenn af lífi

Salúsjní segist telja að Krímskagi sé helsti veikleiki Pútíns. Það sé krúnudjásn í heimsveldisstefnu hans og trúverðugleiki hans og lögmæti velti á því að hafa innlimað Krímskaga aftur í rússneska sambandsríkið. Eitt af markmiðum gagnsóknar Úkraínumanna í suðri var að skera á birgðalínur Rússa til Krímskaga og Úkraínumenn hafa gert margar árásir þar á undanförnum mánuðum.

Til að ná stríðinu upp úr skotgröfunum segir herforinginn að Úkraínumenn þurfi orrustuþotur, betri rafbúnað fyrir staðsetningarkerfi og til að trufla rafbúnað Rússa og aukna getu í stórskotaliði, svo eitthvað sé nefnt.


Tengdar fréttir

Fengu gervihnattatækni í skiptum fyrir sprengikúlur

Sérfræðingar Leyniþjónustu Suður-Kóreu telja að nágrannar þeirra í norðri séu að undirbúa þriðju tilraunina til að skjóta gervihnetti á braut um jörðu. Geimvísindamenn Norður-Kóreu eru sagðir hafa fengið tæknilega aðstoð frá Rússum.

Úkraínsk Rússahækja skotin á Krímskaga

Oleg Tsarev, fyrrverandi þingmaður í Úkraínu, er á sjúkrahúsi og sagður í alvarlegu ástandi eftir að hann var skotinn á Krímskaga síðustu nótt. Tsarev er sakaður um að hafa svikið Úkraínu og gengið til liðs við Rússa.

Slóvakía hættir hernaðar­að­stoð við Úkraínu

Nýskipaður forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, tilkynnti fyrr í dag að stjórnvöld þar í landi muni stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu og hætta þátttöku landsins í viðskiptabanni gagnvart Rússlandi.

Njósnarar þjálfaðir af CIA heyja skuggastríð gegn Rússum

Hópar úkraínskra njósnara sem hafa náin tengsl við Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og hafa jafnvel verið þjálfaðir í Bandaríkjunum eru sagðir heyja eigið stríð gegn Rússlandi í skuggunum. Þeir eru meðal annars sagðir hafa myrt Daríu Dugina í sprengjuárás, samverkamenn Rússa í austurhluta Úkraínu og rússneska hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×