Erlent

Um­ferð um Panamaskurðinn tak­mörkuð vegna fordæmalauss þurrks

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Umferð um Panamaskurðinn hefur verið takmörkuð til muna og mun það hafa mikil áhrif á vöruflutning um allan heim.
Umferð um Panamaskurðinn hefur verið takmörkuð til muna og mun það hafa mikil áhrif á vöruflutning um allan heim. EPA/Bienvenido Velasco

Yfirvöld í Panama hafa tilkynnt að minnka þurfi umferð í gegnum Panamaskurðinn vegna mesta þurrks á svæðinu frá því að mælingar hófust árið 1950. Veðurbrigðið El niño er talið hafa spilað inn í samkvæmt yfirvöldum þar í landi.

El niño er veðurfyrirbæri sem tengist sjávarhitafrávikum í Kyrrahafinu og hefur áhrif á veðurfar víða um heim. Það getur valdið miklum þurrkum eins og þeim sem glímt er við nú í Panama.

Samkvæmt BBC mun þetta hafa áhrif á kostnað vöruflutnings um allan heiminn. 

Panamaskurðurinn er skurður sem tengir saman Kyrrahaf og Atlantshaf og gerir skipaumferð hafanna á milli umtalsvert hraðari þar sem ekki þarf að sigla alla leið um Hornhöfða, syðsta odda Ameríku. Hann er opinn allan sólarhringinn, allan ársins hring og um 13 til 14 þúsund skip sigla hann í gegn ár hvert.

Vatnsyfirborð Gatun-vatns, uppistöðulóns sem er helsta veita þess vatns sem notað er í skipastiga skurðarins, hefur lækkað svo mikið að það er fordæmalaust á þessum árstíma.

Frá og með 3. nóvember munu ekki fara nema 25 skip um skurðinn á dag. Til stendur að fækka skipum niður í átján í febrúar á næsta ári. Breytingarnar munu væntanlega birtast í miklum töfum á flutningi alls kyns vara með tilheyrandi kostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×