Erlent

Af hverju er Trump reiður út í Panama?

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagst ætla að „taka“ Panamaskurðinn.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagst ætla að „taka“ Panamaskurðinn. AP/Ben Curtis

Fyrsta ferðalag Marco Rubio, nýs utanríkisráðherra Donalds Trump, verður til Panama. Trump hefur verið harðorður í garð Mið-Ameríkuríkisins en í innsetningarræðu sinni sagði Trump að Panamamenn hefðu komið illa fram við Bandaríkjamenn og að Kínverjar stjórnuðu nú Panamaskurðinum.

Hann hefur sagt að ráðamenn í Panama hafi svikið samkomulag sem gert var milli Bandaríkjanna og Panama á árum áður og hét Trump því að „taka“ skurðinn aftur.

„Kínverjar stjórna Panamaskurðinu. Við gáfum hann ekki til Kína. Við gáfum hann til Panama og við munum taka hann aftur.“

José Raúl Mulino, forseti Panama, hefur lýst því yfir vegna ummæla Trumps að hver fermetri Panamaskurðarins tilheyri Panama og muni gera það áfram.

Mulino var á fundi World Economic Forum í Davos í Sviss í vikunni og var hann á miðvikudaginn spurður út í ræðu Trumps og hvort hann hefði áhyggjur af því að Bandaríkjamenn myndu taka skipaskurðinn með valdi, svaraði hann og blaðamanninn um að vera ekki að grínast.

Fer einnig að ræða fólksflutninga

Rubio mun einnig fara til El Salvador, Gvatemala, Costa Rica og Dóminíska lýðveldisins en ferð hans til Panama mun líklega vekja mesta athygli. Í hinum ríkjunum má fastlega búast við því, samkvæmt AP fréttaveitunni að Rubio muni ræða við ráðamenn þar um málefni farand- og flóttafólks en í Panama er líklegast að Panamaskurðurinn verði helsta umræðuefnið.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Donalds Trump.AP/Evan Vucci

Talskona utanríkisráðuneytisins sagði blaðamönnum í gær að væntanlegt ferðalag ráðherrans í næstu viku væri til marks um áhuga hans á svæðinu og mikilvægi þess í augum Bandaríkjamanna. Rubio ætlaði sér meðal annars að takast á við þau málefni sem leiða til umfangsmikilla fólksflutninga til norðurs.

Frakkar reyndu fyrst að gera skurðinn

Á árum áður tilheyrði Panama Kólumbíu en eftir byltingu árið 1903 lýstu Bandaríkjamenn yfir stuðningi við ríkið og studdu sjálfstæði þess. Skömmu eftir það tóku þeir við gerð skipaskurðarins og lauk verkinu árið 1914.

Þar áður höfðu Frakkar gert atlögu að gerð Panamaskurðarins, en samkvæmt frétt Wall Street Journal er vitað til þess að Spánverjar skoðuðu hvort hægt væri að gera sambærilegan skurð árið 1543 til að auðvelda gullflutninga frá Perú til Spánar.

Árið 1880 byrjuðu Frakkar að gera skurðinn og var vinnan leidd af manni sem hét Ferdinand de Lesseps en hann hafði verið í forsvari fyrir gerð Súesskurðarins í Egyptalandi.

Verkið reyndist þó erfiðara en hann vonaðist til og varð félagið um skipaskurðinn gjaldþrota. De Lesseps var svo sakfelldur fyrir svik og aðra glæpi en um tuttugu þúsund manns létu lífið við verkið þegar Frakkar héldu utan um það.

Þar var að mest um að ræða verkamenn frá eyjum Karíbahafsins sem smituðust af malaríu og Gulusótt frá moskítóflugum.

Til að koma skipum gegnum Panamaskurðinn þarf að hækka skipin um nítutíu metra með skipastiga.AP/Matias Delacroix

Eins og áður segir tóku Bandaríkjamenn við verkefninu árið 1904 og luku því 1914. Um 45 þúsund manns komu að vinnunni og þar af dóu rúmlega 5.600 en einungis 350 þeirra voru Bandaríkjamenn.

Í kjölfarið tóku Bandaríkjamenn í raun eign á skurðinum og sextán kílómetra breiðu svæði kringum hann. Á þessu svæði voru reistar nokkrar herstöðvar, golfvellir, kirkjur og hús að bandarískum sið. Svæðinu var stýrt af ríkisstjóra sem skipaður var af forseta Bandaríkjanna og heyrði undir ráðherra hermála.

Skipaskurðurinn er um 82 kílómetra langur og er notaður af um fjórtán þúsund skipum á ári hverju og eru flest þeirra annað hvort á leið til eða á leið frá bandarískri höfn.

Sömdu um afhendingu skurðarins

Þetta fyrirkomulag gekk ekki áfallalaust fyrir sig í gegnum árin. Árið 1964 fóru fram mótmæli gegn veru Bandaríkjamanna í Panama sem leiddu til fjögurra daga óreiða. Á þeim tíma skutu bandarískir hermenn 21 Panamamann til bana.

Það jók á vilja Panamamanna til að taka yfir stjórn Panamaskurðarins.

Það var svo árið 1977 sem Jimmy Carter gerði samkomulag við yfirvöld í Panama um að afhenda þeim stjórn á skipaskurðinum í áföngum. Samkomulagið var staðfest af rúmlega tveimur þriðju öldungadeildarþingmanna árið 1978 en frá árslokum 1999 hafa Panamamenn haft fulla stjórn á honum en þá höfðu þeir Ronald Reagan, George H.W. Bush og Bill Clinton framfylgt samkomulaginu gegnum árin.

Eftir að Panamamenn tóku við stjórn skipaskurðarins fóru þeir í mjög kostnaðarsama uppfærslu á honum, svo fleiri skip og stærri kæmust þar í gegn.

Samkvæmt frétt BBC segir samkomulagið milli Bandaríkjanna og Panama að skipaskurðurinn eigi að vera hlutlaust svæði en eitt ákvæði hans segir að Bandaríkjamenn áskilji sér rétt til hernaðaríhlutunar til að verja hlutleysi skipaskurðarins.

Bandaríkjamenn gerðu innrás í Panama árið 1989 en það tengdist ekki skurðinum. Bandaríkjamenn höfðu þá ákært Manuel Noriega, einræðisherra ríkisins, fyrir fíkniefnasmygl og hann hafði einnig fellt úr gildi niðurstöður kosninga sem hann tapaði.

Rúmlega fimm hundruð Panamamenn féllu í innrásinni og 23 bandarískir hermenn.

Hér að neðan má sjá myndband New York Times um Noriega sem gert var eftir að hann dó árið 2017.

Reiður yfir því að þurfa að borga yfir höfuð

John Feeley, fyrrverandi sendiherra Trumps í Panama, sagði í samtali við Wall Street Journal að reiði Trumps í garð ríkisins byggði á langvarandi trú margra íhaldsmanna að það hafi verið mikil mistök að láta af stjórn á skipaskurðinum.

Hann segir Trump hafa brugðist reiðan við árið 2017, þegar Feeley sagði honum að bandarísk herskip greiddu gjald fyrir að fara gegnum skurðinn en þau fá þó forgang.

„Við ættum ekki að borga einn aur,“ mun Trump hafa sagt samkvæmt Feely.

„Við byggðum þetta og Carter gerði slæmt samkomulag.“

Samkvæmt yfirvöldum í Panama fá bandarísk herskip forgang gegnum skipaskurðinn og hefur sjóherinn borað 25,4 milljónir dala fyrir slíkar ferðir á undanförnum 26 árum.

Feeley bendir á að það sé dropi í hafið sé litið til þess að fjárútát til varnarmála í Bandaríkjunum sé nærri því níu hundruð milljarðar dala á þessu ári.

Áhyggjur vegna Kína

Bandaríkjamenn hafa einnig áhyggjur af auknum umsvifum Kínverja í Panama og annarsstaðar í „bakgarði“ Bandaríkjanna.

Fyrirtæki sem heitir Hutchison Port Holdings og er rekið frá Kína hefur frá árinu 1997 leigt umskipunarhafnir á sitthvorum enda Panamaskurðarins. Fyrirtækið rekur hafnir í 24 ríkjum heims en er ekki stýrt af yfirvöldum í Kína.

Þetta fyrirtæki stjórnar skurðinum ekki að neinu leyti.

Verð fyrir flutninga gegnum skipaskurðinn tekur mið af þyngd og stærð skipa og eru þau birt opinberlega og gilda jafnt yfir alla. Gjöld hafa þó aukist á undanförnum árum vegna mikilla þurrka á svæðinu og vatnsskorts í skurðinum, sem hefur einnig leitt til tafa.

Í frétt BBC segir að 21,4 prósent alls farms sem fluttur var um skipaskurðinn frá október 2023 til september 2024, hafi verið á leið til eða frá Kína. Er það næst hæsta hlutfallið á eftir Bandaríkjunum.

Kínversk fyrirtæki, sem eru bæði í einkaeigu og eigu ríkisins, hafa á undanförnum árum fjárfest töluvert í Panama en árið 2017 slitu yfirvöld í Panama á pólitísk samskipti við Taívan, sem Kínverjar gera tilkall til, og gengu inn í umfangsmikið uppviðauppbyggingarverkefni Kínverja. Var það gert gegn mótmælum ríkisstjórnar Trumps, sem sat þá í Hvíta húsinu.

Á þriðja tug ríkja í Suður-Ameríku og Karíbahafinu hafa síðan þá gert það sama og einnig gegn mótmælum frá Washington DC.

Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af þessum auknu umsvifum í Mið- og Suður-Ameríku, sem Bandaríkjamenn hafa lengi kallað „bakgarð“ sinn.

Þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings lögðu í gær fram ályktunartillögu þar sem kallað er eftir því að yfirvöld í Panama slít á öll tengsl við kínversk yfirvöld og fyrirtæki.

Í tillögunni segir að aðkoma kínverskra aðila að uppbyggingu á innviðum tengdum skurðinum og þróum sjálfs skurðarins veki spurningar um það hvort yfirvöld í Panama geti tryggt hlutleysi og öryggi skurðarins.

Washington Post hefur eftir Eric Schmitt, flutningsmanni tillögunnar, að hann vonist til þess að hún sendi yfirvöldum í Panama skýr skilaboð.

„Þetta er tækifæri, tel ég, fyrir Panama að gera það rétta. Þeir hafa heyrt hvað Trump hefur að segja og ég vona að þeir heyri líka hvað öldungadeildin segir.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×